Nú skríður lífið af stað eftir páskagleði. Það er ekki hægt að segja annað en að næstu vikur geti orðið afdrifaríkar fyrir þróun efnahagsmála hér á landi, einkum og sér í lagi þegar kemur að vinnumarkaðnum.
Stjórnvöld reyndu að hindra verkfallsaðgerðir félagsmanna BHM með því að vísa þeim fyrir Félagsdóm og fá aðgerðirnar dæmdar ólögmætar. Þetta gjörsamlega misheppnaðist, þar sem verkfallið var lögum samkvæmt og félagsmenn í fullum rétti. BHM vann fullnaðarsigur.
Ekki boðar þetta gott fyrir framhaldið hjá stjórnvöldum, því deilur verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda eru í algleymingi. Fátt bendir til þess að þar séu deiluaðilar að ná saman.
Stóra spurningin er, hvernig eigi að ná sáttum því augljóslega gengur þessi pattstaða ekki upp til lengdar.
Það er ekki víst að það hafi verið til marks um mikil klókindi að reyna að fá félagsmenn BHM dæmda sem lögbrjóta, ofan í þá stöðu sem fyrir er á vinnumarkaði.
Nú reynir á Bjarna Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, og Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Þeir hljóta að skynja, að það er efnahagsleg hætta á ferðum, ef ekki næst að ná sáttum á vinnumarkaði...