Tæplega fjórðungur heimila á Íslandi, 24,1 prósent, átti erfitt með að ná endum saman í fyrra, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands sem unnar eru úr bráðabirgðaniðurstöðum lífskjararannsóknar Hagstofu Íslands. Það er lægsta hlutfall sem mælst hefur í þannig stöðu í samantektum stofnunarinnar.
Til samanburðar áttu um 51 prósent heimila í erfiðleikum með að ná endum saman árið 2011 og hlutfallið var yfir 40 prósent milli áranna 2010 og 2015.
Stóra ástæðan fyrir þessari breytingu á síðustu árum er sú að fjárhagsleg byrði húsnæðiskostnaðar á meðal heimila í eigin húsnæði lækkaði skarpt á milli ára. Á árinu 2020 sögðust 14 prósent þeirra sem bjuggu í eigin húsnæði eiga erfitt með að ná endum saman en það hlutfall fór rétt niður fyrir tíu prósent í fyrra. Á sama tíma stóð hlutfall þjóðarinnar sem heilt yfir sagði að fjárhagsleg byrði húsnæðiskostnaðar væri í þung í stað, en tæplega 19 prósent heimila sagði það stöðuna í fyrra. Því hefur róðurinn þyngst hjá þeim sem eiga ekki húsnæði á meðan að hann léttist hjá þeim sem það gerðu.
Tæp ellefu prósent heimila á leigumarkaði búa við skort á efnislegum gæðum
Í bráðabirgðaniðurstöðum Hagstofunnar segir að á árinu 2021 hafi 4,2 prósent heimila landsins búið við skort á efnislegum gæðum, þar af 10,9 prósent heimila á leigumarkaði en einungis 2,4 prósent heimila sem búa í eigin húsnæði.
Þar segir enn fremur að þegar horft sé til mismunandi heimilisgerða voru erfiðleikar við að ná endum saman á um helmingi heimila hjá einum fullorðnum með eitt eða fleiri börn á framfæri árið 2021 en á 16 prósent heimila tveggja eða fleiri fullorðinna þar sem ekkert barn var búsett. „Niðurstöðurnar benda því til þess að aukinn fjöldi fyrirvinna dragi úr erfiðleikum við að ná endum saman en að aukinn fjöldi barna á framfæri ýti undir erfiðleika við að láta enda ná saman.“
Afar sjaldgæft hefur verið í gegnum tíðina að heimili sem búi í eigin húsnæði skorti efnisleg gæði. Hlutfallið var á bilinu 2,1 prósent til fjögur prósent árin 2016 til 2021. Hlutfallið var hærra á sama tímabili fyrir heimili sem voru á leigumarkaði eða á bilinu 10,6 prósent til 17,2 prósent, og hæst árið 2016. „Verulegur skortur efnislegra gæða mælist vart á meðal heimila í eigin húsnæði og hefur leitnin verið frekar niður á við. Alls bjuggu 2,5 prósent heimila á leigumarkaði við verulegan skort efnislegra gæða árið 2021.“
Niðurstöðurnar eru unnar úr lífskjararannsókn Hagstofu Íslands. Um er að ræða langsniðsrannsókn þar sem haft er samband við hátt í fimm þúsund heimili árlega. Vogir íslensku lífskjararannsóknarinnar voru endurskoðaðar og þeim breytt fyrir gagnasöfnun ársins 2017. Það veldur broti í tímaröð á metnum fjölda heimila á landinu og getur verið varasamt að bera saman fjöldatölur heimila fyrir og eftir brot í tímaröð.