„Ætlar einhver í hæstvirtri ríkisstjórn Íslands að taka ábyrgð á stöðu efnahagsmála í dag? Er hæfnin til staðar? Treystir fólk sér til að viðurkenna hagstjórnarmistök?“
Kristrún Frostadóttir þingmaður Samfylkingarinnar hóf ræðu sínu undir liðnum störf þingsins á Alþingi í vikunni á því að spyrja þessara spurninga.
Hún sagði að 400 milljarðar króna væri upphæðin sem heimilin í landinu hefðu skuldsett sig fyrir efnahagsbatanum fyrir tilstuðlan þessarar ríkisstjórnar sem hefði beðið of lengi með markvissar aðgerðir þegar COVID-faraldurinn skall á.
Ríkisstjórnin þarf að „sjá að sér, losa sig við kreddur og ráðast í neyðaraðgerðir“
Þingmaðurinn sagði enn fremur að ríkisstjórnin hefði treyst á embættismenn í Seðlabankanum til að bjarga málunum og stíga inn í með almennar örvunaraðgerðir á tímum sértæks áfalls, aðgerðir sem hefðu þanið eignamarkaði og markað fyrir heimili fólks.
„Þessi þróun var fyrirséð en nú mæta forsvarsmenn hæstvirtrar ríkisstjórnar í fjölmiðla og segjast vanmáttugir gagnvart verðbólgunni, að lítið sé hægt að gera. Takið ábyrgð á ástandinu. Þetta eru afleiðingar verka eða öllu heldur verkleysis hæstvirtra ráðherra.
Í að verða áratug hefur efnahagsstjórninni hér á landi verði stýrt meira og minna af sömu flokkunum. Þeir hafa brugðist fólkinu í landinu á húsnæðismarkaði og vandinn versnaði allverulega vegna hræðslu þessara stjórnvalda við alvöruaðgerðir í ríkisfjármálum í upphafi þessa faraldurs. Þessi kreddupólitík bitnar nú allhressilega á fólkinu í landinu. Við blasa vaxtahækkanir, enda 6 prósent verðbólga en þetta er verðbólga ríkisstjórnarinnar. Það er ekki réttlætanlegt að hagstjórnarmistök hennar skapi neyð meðal viðkvæmra hópa,“ sagði hún.
Kristrún endaði mál sitt á að segja að ríkisstjórnin þyrfti að sjá að sér, losa sig við kreddur og ráðast í neyðaraðgerðir í formi vaxtabóta, barnabóta og húsaleigubóta. „Það er fólk þarna úti sem hefur ekki tíma til þess að bíða eftir óljósum loforðum um framtíðarúrbætur sem hafa setið á hakanum í áratug.“