Hersir Sigurgeirsson, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, og Frímann Snær Guðmundsson, viðskiptafræðingur, hafa tekið saman lista yfir þá tuttugu einstaklinga sem eiga mest af hlutabréfum í skráðum félögum á Íslandi.
Listann er að finna í rannsókn þeirra, sem kynnt var á hádegisverðarfundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga í dag, undir yfirskriftinni; Eignarhald á íslenskum hlutabréfamarkaði í lok árs 2013.
Listi yfir þá tuttugu einstaklinga sem mest eiga af skráðum hlutabréfum á Íslandi.
Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyrir Invest, trónir á toppi listans með 1,16 prósent skráðra hlutabréfa í sinni eigu, en markaðsvirði bréfanna nam rúmum 5,7 milljörðum króna í lok árs 2013.
Árni Oddur Þórðarson, fyrrverandi forstjóri Eyrir Invest og núverandi forstjóri Marel, átti í lok árs 2013 rétt rúmlega eitt prósent allra skráðra hlutabréfa á markaði, að andvirði tæplega fimm milljarða króna. Ljóst má vera að stærsta eign feðganna Þórðar og Árna séu hlutabréf í Marel, en stærsta eign Eyrir Invest er sömuleiðis í Marel.
Fjárfestirinn Sigurjón Jónsson situr í þriðja sæti listans, með 0,46 prósent skráðra hlutabréfa á Íslandi í sinni eigu, en markaðsvirði bréfanna nam tæpum 2,3 milljörðum króna í lok árs 2013.
Þá eru mörg önnur kunnugleg nöfn úr viðskiptalífinu á listanum. Má þar helst nefna fjárfestanna Friðrik Hallbjörn Karlsson og Árna Hauksson, Kjartan Gunnarsson, Helga Magnússon stjórnarmaður hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna, fjárfestinn Heiðar Má Guðjónsson, Skúla Mogensen og Bjarna Ármannsson. Athygli vekur að aðeins þrjár konur komast á listann, eða þær Steinunn Jónsdóttir, Helga Sigurðardóttir og Súsanna Sigurðardóttir.
Markaðsvirði hlutabréfanna sem tuttugu manna hópurinn átti í lok árs 2013, nam röskum 26,2 milljörðum króna. Þá átti hópurinn samanlagt 5,32 prósent allra hlutabréfa í skráðum félögum á Íslandi.