„Þetta sýnir að stjórnarflokkarnir ráða ekki við að standa að sátt um skynsamlega framtíðarstefnu fyrir sjávarútveginn sem byggir á grundvallarreglunni um eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni. Þetta er algert skipbrot.“ Þetta segir Árni Páll Árnason, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar, í ljósi tíðinda af því að ekki sé von á frumvarpi um breytingar á stjórn fiskveiða á yfirstandandi þingi, og bara alls ekki að óbreyttu.
Í samtali við RÚV segir Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, að vegna ágreinings milli stjórnarflokkanna um hver skuli fara með forræði yfir kvótanum sé ekki von á nýju kvótafrumvarpi nema forsendur breytist. Málið sé komið á endastöð. Hins vegar verði frumvarp um veiðigjöld tekið fyrir á vorþingi sem verði lagt fram fljótlega.
Árni Páll gagnrýnir ríkisstjórnarflokkana harðlega fyrir að hafa ekki náð sátt um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. „Eina sem stjórnarflokkarnir virðast ráða við er að lækka veiðigjöldin þvert á ráðgjöf sérfræðinga og einkavæða auðlindina. Afleiðingin er óvissa í greininni sem dregur úr fjárfestingum og spillir framtíðarhorfum hennar, eins og (Kolbeinn Árnason) framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi rakti svo ágætlega í kvöldfréttum RÚV.“