Þingmenn Pírata hafa lagt fram frumvarp á Alþingi til breytinga á kosningalögum, sem ætlað er að koma í veg fyrir að við úthlutun þingsæta sé fulltrúum skipt ójafnt á milli flokka. Píratar segja að hin svokallaða D’Hondt-framkvæmd við úthlutun þingsæta valdi þessu, í samspili við 5 prósenta atkvæðaþröskuldinn sem flokkar þurfa að klífa til að fá jöfnunarmönnum úthlutað. Vandamálið hafi ágerst á síðari árum með fjölgun stjórnmálaflokka sem eru í framboði til Alþingis.
Í frumvarpi Pírata er lögð til breyting á því hvernig jöfnunarsætum er úthlutað, sem felst í því að ekki verði ákveðið fyrir fram hversu mörg jöfnunarsætin eru, heldur ráðist það af því hversu mörgum jöfnunarsætum þurfi að úthluta hverju sinni, þegar ljóst er hvað kemur upp úr kjörkössunum.
Sósíalistar hefðu náð inn á þing
Í dæmi sem tekið er af niðurstöðum kosninganna á síðasta ári, með úthlutunarreglum Pírata, hefði 58 kjördæmasætum verið úthlutað og fimm jöfnunarsætum. Ef stuðst hefði verið við þá úthlutun sem Píratar leggja til hefði Sósíalistaflokkur Íslands orðið níundi flokkurinn á þingi, með tvo þingmenn, en ákvæði stjórnarskrár um 5 prósent þröskuldinn kveða á um að jöfnunarsæti sem hefði átt að falla flokknum í skaut samkvæmt tillögðum úthlutunarreglum Pírata megi ekki veita flokknum. Það jöfnunarsæti hefði þannig færst til Miðflokksins.
Úthlutunaraðferð Píratar er útskýrð þannig að fyrst sé fundið hversu mörgum þingsætum hver flokkur eigi rétt á í heildina á landsvísu. Það sé gert með einföldum hlutfallsreikningi þar sem atkvæðahlutfall og þingsætahlutfall er lagt að jöfnu yfir allt landið. Svo skal hlutfall hvers flokks í þingsætum námundað niður, og samtala þeirra vera úthlutuð þingsæti. Að því loknu skuli fundin samtala þeirra brota sem námunduð voru frá þingsætunum, sem væri þá fjöldi jöfnunarsæta.
„Til glöggvunar má taka dæmi um framboð sem fær 10,2% atkvæða á landsvísu, og ætti þá 10,2% þingsæta samkvæmt hlutfallsreikningi. 10,2% þingsæta eru 6,426 þingsæti. Í því tilfelli er einfaldlega sagt að það framboð fái 6 þingsæti og 0,426 jöfnunarsæti verði þannig afgangs. Þegar sambærilegri útdeilingu er lokið fyrir öll framboð þá er einhver fjöldi þingsæta eftir sem framboðin eiga mismikið tilkall til. Eitt framboð gæti verið með 5,5 þingsæti og annað 10,2 þingsæti. Eftir að þessi tvö framboð hafa fengið sín 5 þingsæti og 10 þingsæti, þá þarf að úthluta þeim sætum sem ganga af. Við úthlutun jöfnunarsætanna er tekið tillit til þess hvaða framboð á mest tilkall til hvers jöfnunarsætis,“ segir í útskýringum í frumvarpi Pírata.
Þingsætum úthlutað koll af kolli á milli kjördæma
Sú úthlutun þingsæta í kjördæmum sem Píratar sjá fyrir sér er einnig frábrugðin núverandi fyrirkomulagi, en samkvæmt fyrirkomulaginu sem þingflokkurinn leggur til er sætum úthlutað yfir allt landið í staðinn fyrir að það sé gert í hverju kjördæmi fyrir sig.
„Flokkur með það atkvæðahlutfall sem er hæst á landsvísu, fyrir alla flokka og öll kjördæmi, fær fyrst úthlutað þingsæti. Úthlutunin er ekki framkvæmd í hverju kjördæmi fyrir sig heldur koll af kolli, eftir því hvaða flokkur er með hæsta óúthlutaða hlutfall atkvæða. Taka má dæmi um flokk X, sem er með 5% atkvæða í kjördæmi A, 14% atkvæða í kjördæmi B og 4% atkvæða í kjördæmi C. Sá flokkur fengi fyrst úthlutað þingsæti í kjördæmi B. Þetta getur leitt til þess að öllum þingsætum kjördæmis hefur verið úthlutað þegar kemur að því að úthluta þingsætinu til flokks X í kjördæmi A. Í því tilfelli er því þingsæti úthlutað til næsta kjördæmis sem enn er laust þingsæti í fyrir flokk X sem ætti að fá úthlutuðu þingsæti þar,“ segir í greinargerð með frumvarpi Pírata.
Þingmenn flokksins segja núverandi fyrirkomulag við úthlutun þingsæta hygla stærri flokkum umfram þá sem eru smærri og búa þannig til lýðræðislega skekkju. „Þetta frumvarp lagar skekkjuna að einhverju leyti, en þó ekki fullkomlega. Það er enn mikill munur á milli kjördæma sem er sérstakt og stærra viðfangsefni að lagfæra. Það krefst breytinga á fjölda kjördæma eða endurskipulagningar á legu kjördæmanna,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.