Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra nýtur breiðs stuðnings innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins til að starfa áfram í ríkisstjórn. Þetta er niðurstaða þingflokksfundar Sjálfstæðismanna í dag að sögn Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.
Eins og fram hefur komið var Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður innanríkisráðherra, dæmdur í átta mánaða fangelsi í Héraðsdómi í dag fyrir að leka trúnaðarupplýsingum um hælisleitanda úr innanríkisráðuneytinu til fjölmiðla í nóvember. Fullnusta dómsins kemur ekki til haldi Gísli Freyr skilorð í tvö ár.
"Nýtur óskoraðs trausts frá mér"
Í frétt mbl.is um málið er haft eftir Bjarna: "Hún nýtur trausts til að halda áfram. Hún nýtur óskoraðs trausts frá mér og það kom fram breiður stuðningur við ráðherrann á þingflokksfundinum. Það er eðlilegt að menn spyrji sig þegar aðstoðarmaður ráðherra fær dóm á sig í refsimáli hvernig eigi að bregðast við. Í mínum huga hefur ráðherrann gert það sem í hennar valdi stendur til þess að bregðast við."
Þá segir Bjarni að Hanna birna hafi reynt að aðstoða við að upplýsa um málið þó einhver mistök hafi verið gerð undir rannsókn þess. Ekkert bendi til þess að Hanna Birna hafi haft aðkomu að málinu. Þá hafi hún axlað ákveðna pólitíska ábyrgð á sínum tíma þegar hún sagði sig frá dómsmálunum.