Þingfundur, sem áætlað var að hæfist á Alþingi klukkan tíu í morgun, er enn ekki hafinn. Nú er áætlað að fundurinn hefjist klukkan 11.30. Á fundinum verður lagt fram frumvarp ríkisstjórnarinnar um að verkföllum hjúkrunarfræðinga og félaga innan BHM verði frestað til 1. júlí næstkomandi.
Formenn allra þingflokka og forseti Alþingis funduðu í morgun um málið en stjórnarandstaðan vildi ekki fallast á að þingfundur hæfist klukkan tíu eins og boðað hafði verið. Katrín Júlíusdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, segir í samtali við RÚV að engin svör hafi fengist um það hver forgangsmál þingsins séu og því sé ekkert samkomulag um það hvar á dagskránni frumvarpið sem fresta á verkföllunum verður. Þetta staðfesti Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mun flytja frumvarpið að því er Morgunblaðið greindi fyrst frá í morgun. Þetta varð niðurstaðan eftir ágreining milli oddvita Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins um það hvaða ráðherra skyldi flytja frumvarpið. Ef það gengur eftir mun það vera í fyrsta sinn sem forsætisráðherra flytur ekki slíkt frumvarp, sem snertir margar starfsstéttir.
Formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa tjáð sig um frumvarp ríkisstjórnarinnar á Facebook-síðum sínum í morgun. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir þar að það sé til að bíta höfuðið af skömminni að neita fjölmennri kvennastétt um sambærilega leiðréttingu og gróinni karlastétt, læknum, á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna og 40 ára afmæli kvennafrídagsins. Heilbrigðisstarfsfólk sé allt með alþjóðlega menntun sem spurn sé eftir erlendis, og aldrei hafi getað farið öðruvísi en illa þegar samið var við lækna. „Við getum ekki brotið upp vinnumarkaðinn og veitt fámennum hópi forréttindastöðu en látið fjöldann bera tjónið af krónunni.“
„Í fjórða sinn á þessu kjörtímabili leggur ríkisstjórnin fram frumvarp um lagasetningu á verkfall. Á sama tíma og stjórnvöld telja sig ekki hafa svigrúm til að semja við opinbera starfsmenn boða þau skattalækkanir í anda nýfrjálshyggjunnar. Þetta sýnir forgangsröðun stjórnvalda,“ skrifaði Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, lagði til að frekar yrðu sett lög á ríkisstjórnina.
Nokkur hundruð manns eru á mótmælafundi vegna frumvarpsins á Austurvelli. Mótmælendur hyggjast mæta á þingpalla þegar fundurinn hefst.
Uppfært kl. 11.05: Búið er að ákveða að þingfundur hefjist klukkan 11.30 og var þeim upplýsingum bætt inn í fréttina.