Samkomulag liggur fyrir milli þingflokka um að ljúka þingstörfum næstkomandi föstudag. Samkvæmt upphaflegri starfsáætlun átti Alþingi að ljúka störfum 29. maí, en gerir það ekki fyrr en 3. júlí, eða 36 dögum síðar. Á meðal þeirra mála sem stjórnarflokkarnir gáfu eftir til að gera þinglok möguleg voru afgreiðsla makrílfrumvarpsins og færsla fjölmargra virkjanakosta úr biðflokki í nýtingarflokk rammaáætlunar. Stærsta málið sem verður klárað á síðustu dögum þingsins er afgreiðsla þeirra frumvarpa sem snúa að áætlun stjórnvalda um losun hafta, meðal annars frumvarp um stöðugleikaskatt.
Makrílfrumvarpinu verður frestað fram á haustþing og ein breyting gerð á rammaáætlun með því að færa Hvammsvirkjun úr biðflokki í nýtingarflokk.
Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi mestu vonbrigðin varðandi þinglokssamkomulagið vera það að makrílfrumvarpið fari ekki í gegn. Þar hafi meirihlutinn mætti minnihlutanum í öllum hans kröfum en án árangurs. Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingar, sagði á sama vettvangi að það hefði aldrei verið raunsætt að afgreiða fleiri mál en þau sem nú hefur samist um að hleypa í gegn. Í ljósi þess hefði verið hægt að komast að þessari niðurstöðu strax í máli en samkomulagið hefði hins vegar tekið ákveðinn tíma.