Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, hefur óskað eftir frekari upplýsingum varðandi fjölmiðla- og lögfræðiráðgjöf innanríkisráðuneytisins vegna Lekamálsins svokallaða. Þetta kemur fram í skriflegri fyrirspurn þingmannsins til Ólafar Nordal innanríkisráðherra.
Eins og Kjarninn greindi fyrstur fjölmiðla frá á dögunum, greiddi innanríkisráðuneytið ráðgjafafyrirtækinu Argus tæpar 2,4 milljónir króna vegna fjölmiðlaráðgjafar í tengslum við Lekamálið á síðasta ári. Þetta kom fram í svari ráðuneytisins við skriflegri fyrirspurn Kjarnans. Kjarninn hefur óskað eftir frekari upplýsingum varðandi umrædda ráðgjöf, og bíður enn svara frá innanríkisráðuneytinu.
Þá kom fram í upphaflegu svari innanríkisráðuneytisins að ráðuneytið hafi greitt lögmannsstofunni LEX rúma milljón króna vegna lögfræðiráðgjafar vegna Lekamálsins.
Áðurnefnd fyrirspurn þingmanns Pírata er í sex liðum, og er eftirfarandi:
1. Hvenær var ráðuneytinu veitt fjölmiðlaráðgjöf af hálfu Argus markaðsstofu árið 2014, sundurliðað eftir dagsetningum?
2. Hvað fólst í þeirri fjölmiðlaráðgjöf, sundurliðað eftir efni og formi ráðgjafar?
3. Hver var heildarkostnaður ráðuneytisins við fjölmiðlaráðgjöf Argus markaðsstofu, sundurliðað eftir útgefnum reikningum?
4. Hvenær var ráðuneytinu veitt lögfræðileg ráðgjöf af hálfu LEX lögmannsstofu árið 2014, sundurliðað eftir dagsetningum?
5. Hvað fólst í þeirri lögfræðilegu ráðgjöf, sundurliðað eftir efni og formi ráðgjafar?
6. Hver var heildarkostnaður ráðuneytisins við lögfræðilega ráðgjöf LEX lögmannsstofu, sundurliðað eftir útgefnum reikningum?