Alþingi greiddi 28 þingmönnum samtals 51,5 milljónir króna í svokallað akstursgjald, eða vegna aksturs eigin bifreiða, á síðasta ári. Þar af voru 18 þingmenn sem fengu greitt meira en eina milljón króna, en greiðslurnar eru undanþegnar skatti. Þetta kemur fram í skriflegu svari skrifstofu Alþingis við fyrirspurn Kjarnans.
Akstursgjald er greitt samkvæmt akstursdagbók þar sem þingmenn halda utan um allan akstur á sínum eigin bifreiðum. Ferðakostnaðarnefnd, sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið, ákveður akstursgjald í aksturssamningum ríkisstarfsmanna og ríkisstofnana. Gjaldið skiptist í almennt gjald, sérstakt gjald og svokallað torfærugjald. Almenna gjaldið á við akstur á malbikuðum vegum innanbæjar og utan, sérstaka gjaldið á við akstur á malarvegum utanbæjar og torfærugjaldið miðast við akstur við sérstaklega erfiðar aðstæður, gjarnan utan vega og einungis jeppafært.
90.000 krónur fyrir akstur til Akureyrar og til baka
Samkvæmt almenna gjaldinu eru greiddar 116 krónur fyrir hvern ekinn kílómetra upp að tíu þúsund kílómetrum, 104 krónur eftir það og upp að 20.000 kílómetrum og 93 krónur fyrir hvern kílómetra umfram þá vegalengd. Við útreikning á sérstöku gjaldi bætist við 15 prósenta álag ofan á almenna gjaldið, og við útreikning á torfærugjaldi skal bæta 45 prósenta álagi á almenna gjaldið.
Miðað við ofangreint kostar því ferð þingmanns á eigin bíl til Akureyrar og til baka rúmar 90.000 krónur sem greiðast úr ríkissjóði. Sé vinnuferðinni heitið til Egilsstaða og til baka, hljóðar kostnaður ríkissjóðs upp á rúmar 151.000 krónur. Þá kostar önnur leiðin til Selfoss ríkissjóð rúmar sex þúsund krónur, og ökuferð úr höfuðborginni til Sauðárkróks kostar rúmar 37 þúsund krónur.
Samkvæmt upplýsingum af vef efnahags- og fjármálaráðuneytisins hefur ferðakostnaðarnefnd til þessa stuðst við ákveðinn grunn við útreikning akstursgjalds. Á grundvelli hans var reiknaður út rekstrarkostnaður bifreiðar á heilu ári miðað við 15 þúsund kílómetra akstur og síðan meðalkostnaður á hvern kílómetra sem gjaldið tók svo mið af. Grunnur akstursgjaldsins skiptist í fastan kostnað og breytilegan kostnað. Í föstum kostnaði voru afskriftir, skoðunargjald, bifreiðagjald, ábyrgðartrygging og húftrygging, en í breytilegum kostnaði bensín, smurning, olía, hjólbarðar, varahlutir og viðgerðir.
Gengur brösulega að fá þingmenn til að nota bílaleigubíla
Ríkissjóður greiddi röskar 62 milljónir króna vegna afnota af bifreiðum starfsmanna Alþingis árið 2013, samkvæmt ríkisreikningi. Árið 2012 hljóðaði kostnaður ríkissjóðs vegna þessa rúmum 54 milljónum króna. Lækkunina á milli ára má skýra með ákvörðun skrifstofu Alþingis um að greiða einungis sem samsvarar flugfargjaldi, ef för þingmanns var heitið þangað sem hægt var að fljúga með áætlunarflugi. Fram að því var það þingmannsins að ákveða hvort hann ferðaðist með flugi á kostnað Alþingis eða notaðist við einkabílinn á löngum ferðalögum.
Skrifstofa Alþingis hefur gripið til aðgerða til að ná þessum kostnaði niður enn frekar, og hefur beint því til þingmanna að þeir notist frekar við bílaleigubíla í störfum sínum heldur en sína einkabíla. Heimildir Kjarnans herma að brösulega hafi gengið að fá þingmenn til að bregðast við tilmælunum, enda um töluverða kjarabót að ræða fyrir þingmenn að notast við sinn einkabíl í erindum fyrir Alþingi.
Skrifstofa Alþingis hefur gert samninga við bílaleigufyrirtæki sem eru að finna í rammasamningi Ríkiskaupa, um afslætti af gjaldskrá bílaleigubíla. Í áðurnefndu svari skrifstofu Alþingis við fyrirspurn Kjarnans segir: „Samningarnir munu fyrst og fremst gagnast varðandi akstur þingmanna sem stunda heimanakstur, það er búa ekki fjarri höfuðborgarsvæði en aka til Reykjavíkur daglega. Það á þó einnig við um akstur annarra þingmanna í lengri ferðum í eigin kjördæmi.“
Skrifstofa Alþingis áætlar að hægt verði að lækka kostnað við akstur um allt að tólf milljónir króna á ári, með því að fá þingmenn til að notast meira við bílaleigubíla. „Nú þegar á þessi framkvæmd við um nokkra þingmenn sem sýnir að þessi áætlun getur vel staðist. Stefnt er að setja þetta fyrirkomulag að fullu í framkvæmd á næstunni.“