Þingflokkur Framsóknarflokksins leggur til ríkisstjórnin skoði stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi, og að við frumathugun í þeim efnum verði litið til starfsemi Equinor í Noregi, sem áður hét Statoil.
Þingsályktunartillaga flokksins um þetta mál hefur verið lögð fram á Alþingi, en á bak við hana standa allir þingmenn flokksins sem ekki sitja sem ráðherrar. Stefán Vagn Stefánsson er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Ábatinn renni til þjóðarinnar
Í greinargerð með tillögu þingmanna Framsóknar segir að framleiðsla rafeldsneytis, þá vetnis eða annars rafeldsneytis í formi ammóníaks, metanóls eða metans, séu græn tækifæri sem bíði þess að vera nýtt. Framtíðartækinfærin í þessum efnum séu mikil, og mikilvægt sé að Ísland verði sjálfbært er kemur að öflun rafeldsneytis.
En þingflokknum er ljóslega ekki sama hvernig staðið verður að því að nýta þau tækifæri sem liggja í framleiðslunni, heldur vill horfa til þess að stofnað verði ríkisfélag um framleiðsluna til þess að tryggja að stærsti hluti ábatns af framleiðslunni renni til þjóðarinnar.
„Ef horft er til Noregs og stofnunar ríkisolíufélagsins Statoil árið 1972 ætti öllum að vera ljós ábati norska ríkisins af þeirri ákvörðun. Norski olíusjóðurinn er einn sá stærsti í heiminum í dag og hefur gerbreytt stöðu Norðmanna til uppbyggingar innviða og þjónustu við íbúa um allan Noreg. Ísland er í kjörstöðu til að nýta auðlindir sínar til framleiðslu rafeldsneytis, bæði fyrir innanlandsframleiðslu og mögulega til útflutnings, og styrkja þannig tekjustofna ríkissjóðs,“ segir í greinargerðinni með þingsályktunartillögu framsóknarfólks.
Þar segir einnig að það megi velta upp hvort tekjur af slíku fyrirtæki, ef af yrði, ættu að renna í samfélagssjóð líkt og þeim sem Norðmenn hafa komið sér upp í tengslum við olíuvinnslu sína.
Í greinargerð framsóknarfólks segir einnig að til að stofnun ríkisfélags um framleiðsluna geti orðið að veruleika skipti „stuðningur og aðgerðir opinberra aðila og nýsköpunarsjóða afar miklu máli svo möguleiki sé á að skapa það umhverfi sem best verður á kosið og styðja við þróun tækni og lausna“.
„Við á Íslandi erum í sterkri stöðu til orkuskipta. Þar af leiðandi þurfum við að gæta þess að tækifærin sem liggja fyrir í þessum málaflokki renni okkur ekki úr greipum. Tæknin er til staðar og okkur ber að nýta hana í þágu þjóðarinnar,“ segir þingflokkur Framsóknar í tillögu sinni.