Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis vill að ríkisstjórnin fjalli um breytingar á lögum um mannanöfn og vísaði frumvarpi um breytingarnar til ríkisstjórnarinnar í gær. Öll þingnefndin var sammála um að það skyldi gert og að nauðsynlegt sé að breyta lögunum.
Óttar Proppé var fyrsti flutningsmaður frumvarpsins um breytingar á lögunum, en markmið þess var að undirstrika þá meginreglu að almennt séu nöfn leyfð, foreldrum treyst til að velja börnum sínum nöfn og að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar sé virt. Samkvæmt frumvarpinu verður mannanafnanefnd lögð niður og kvaðir um ættarnöfn felld burt.
Í nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar kemur fram að allir gestir sem fyrir nefndina komu voru sammála um að það sé full þörf á því að ráðast í endurskoðun laga um mannanöfn, en þau voru síðast endurskoðuð fyrir tuttugu árum. Allir voru sammála um að auka þurfi frjálsræði í þessum málum, en ekki allir sammála um hversu langt skal ganga.
Vinna er þegar hafin í innanríkisráðuneytinu við skoðun á því hvort þörf sé á endurskoðun laganna og allsherjar- og menntamálanefnd fagnar því og leggur áherslu á að nauðsynlegt sé að gera breytingar.
Í áliti nefndarinnar kemur einnig fram að á tímabilinu 2005 til 2014 voru framkvæmdar rúmlega 25 þúsund nafnbreytingar í þjóðskrá. Langstærstur hluti var breytingar á kenninafni, þannig að kenning til föður verði kenning til móður og öfugt, ættarnöfn eru tekin upp eða felld niður og ættleidd börn fá kenningu til kjörforeldris. Alls voru rúmlega 17 þúsund slíkar breytingar gerðar.