Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, býst við því að endurflytja tillögu sína um að íslenska ríkið kosti hagkvæmnisathugun vegna uppbyggingar á áburðarverksmiðju. Þorsteinn hefur þegar verið fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um málið án þess að það hafi hlotið brautargengi. Hann segist ekkert sjá að því að íslenska ríkið taki þátt í atvinnuuppbyggingu í hópi annarra fjárfesta ef þarf, þá sérstaklega til skamms tíma. Þetta opinberaði Þorsteinn í umræðum við stöðuuppfærslu á Facebook-síðu Hjálmars Gíslasonar í gærkvöldi.
Þar fjallar Hjálmar um frétt á mbl.is um að hlutabréf álfyrirtækja hafi hríðfallið, setur það í samhengi við stöðu þeirra álvera sem rekin eru á Íslandi og spyr hvort það þurfi ekki hugsanlega að fara að leita að nýjum kaupendum fyrir orku sem þurfi til að reka eins og eitt álver.
Þorsteinn er á meðal þeirra sem blanda sér í umræður um málið. Hann bendir á að áburðarverksmiðja gæti notað á milli 200 til 300 Megawött af orku. Síðan segir hann: „ Áburðarverð er á uppleið og rétt við hámarksverð. Eftirspurn eykst um ca. 3% á ári og reiknað með að svo verði til a.m.k. 2018. Framleiða þarf 50% meiri matvæli næstu 20 ár til að komast hjá hungursneyð að mati OECD. Hef tvisvar flutt þingsályktunartillögu um að ríkið kosti hagkvæmniathugun vegna uppbyggingar slíkrrar verksmiðju. Býst við að endurflytja hana í haust.“
Þorsteinn verst síðan ávirðingum um að í þingsályktunartillögu hans felist að ríkið eigi að reisa áburðarverksmiðjuna. Málið snúist um að gera hagkvæmisathugun. Þorsteini var þá bent á viðtal við hann í fréttum Stöðvar 2 í febrúar 2014 þar sem hann sagði að ekkert væri því til fyrirstöðu að ríkið standi fyrir atvinnuskapandi verkefnum. „Það er mín prívatskoðun sú að ef þarf þá er ekkert að því að ríkið leiði hluthafahóp sem myndi vinna að svona verkefni eða önnur verkefni,“ sagði Þorsteinn.
Þorsteinn sagði að afstaða sín til málsins hefði í sjálfu sér ekki breyst. „Sé ekkert að því að ríkið taki þátt í atvinnuuppbyggingu í hópi annarra fjárfesta ef þarf, þá sérstaklega til skamms tíma á meðan á uppbyggingu stendur. Það þýðir ekki ohf. eða hefðbundinn ríkisrekstur.“
Viðtalið við Þorstein frá því í febrúar 2014 má sjá hér að neðan: