Þorsteinn G. Gunnarsson hefur verið ráðinn forstjóri Opinna kerfa hf. frá og með deginum í dag, 1. júní 2015. Þorsteinn tekur við af Gunnari Guðjónssyni sem gegnt hefur stöðu forstjóra frá árinu 2008. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Opnum kerfum. Ákvörðunin um starfslok Gunnars er sameiginleg.
Skipulagsbreytingar urðu hjá félaginu í október 2014 þar sem svið voru sameinuð og framkvæmdastjórum fækkað. Í núverandi framkvæmdastjórn félagsins sitja, María Ingimundardóttir, framkvæmdastjóri ráðgjafasviðs, Guðbrandur R. Sigurðsson, framkvæmdastjóri sölu- & markaðssviðs, Elín Gränz, framkvæmdastjóri mannauðs- & þjónustusviðs, Friðþjófur Bergmann, framkvæmdastjóri vöruþróunar- & verkefnasviðs og Kristján Ólafsson, framkvæmdastjóri fjármála- & innkaupasviðs.
Um 100 manns starfa hjá Opnum kerfum og árleg velta fyrirtækisins er um fimm milljarðar króna. Opin kerfi var stofnað árið 1985 og er því 30 ára um þessar mundir.
Þorsteinn, sem tók við forstjórastarfinu í dag, er rafmagnsverkfræðingur frá Háskóla Íslands, og með meistarapróf frá University of Washington. Þorsteinn starfaði hjá Opnum kerfum frá 1996 til 2008 sem framkvæmdastjóri ráðgjafar- og þjónustusviðs og síðast sem forstjóri. Þorsteinn var stjórnarformaður Advania, meðstofnandi og stjórnarmaður í Cooori ehf. Hann hefur verið virkur í nýsköpunarsamfélaginu, leiddi sameiningu Klaks og Innovit og er stjórnarformaður sameinaðs félags, Klak-Innovit.