„Ég segi að númer eitt, tvö og þrjú þá á Már Guðmundsson að bera ábyrgð. Hann er yfirmaður Seðlabankans. Hann á að bera þessa ábyrgð. Að sjálfsögðu á Már Guðmundsson að segja af sér. Hann er búinn að reka mál gagnvart hundruðum einstaklinga og fjölda fyrirtækja, að ástæðulausu. Þetta fólk hefur þurft að borga lögfræðikostnaðinn sinn sjálft.“
Þetta segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, í viðtali við Eggert Skúlason, ritstjóra DV, í DV í dag. Í viðtalinu er Þorsteinn Már spurður um rannsókn Seðlabankans á gjaldeyrisviðskiptum fyrirtækisins. Eins og Kjarninn hefur greint frá þá felldi sérstakur saksóknari málið niður á hendur Þorsteini Má og öðrum starfsmönnum Samherja, en um þrjú og hálft ár eru liðið frá því að húsleit var gerð í höfuðstöðvum Samherja.
Í DV í dag kemur fram að Þorsteinn Már ætli að skrifa bréf til bankaráðs Seðlabankans og óska eftir því að „brjálsemi verði stöðvuð“.
„Bón mín til Seðlabankaráðs er einföld. Það er kominn tími til að þið stöðvið þetta brjálæði gagnvart svona mörgum. Það að fá stöðu sakbornings er það alvarlegt mál og mikið inngrip inn í líf fólks. Mín skoðun er að það hafi verið farið ótrúlega illa með þetta vald. Ég mun biðla til Seðlabankaráðs að þeir stöðvi þessa brjálsemi. Bankanum var gefið ákveðið lögregluvald og hann kann ekkert með þetta að fara. Stoppið þetta,“ segir Þorsteinn Már.
Margir grétu
Eggert spyr Þorstein Má að því hversu erfitt þetta hafi verið honum, og vísar þá til rannsóknar Seðlabankans, og einnig hvort hann hafi grátið á tímabili. Í frásögn DV segir að löng þögn hafi myndast eftir að spurningin var borin upp og að Þorsteinn Már hafi litið út um gluggann. Síðan hafi hann sagt lágum rómi: „Ég grét ekki en það grétu margir aðrir. Mér leið að hluta til eins og á strandstað fyrir tíu árum,“ og vísaði til þess þegar skipið Baldvin Þorsteinsson strandaði skammt frá Vík í Mýrdal.