Þórunn Sveinbjarnardóttir verður líklega næsti formaður Bandalags háskólamanna (BHM). Uppstillingarnefnd til stjórnarkjörs hjá BHM hefur lagt þetta fyrir aðalfund bandalagsins, sem verður haldinn þann 22. apríl næstkomandi. Lagt er til að Páll Halldórsson, núverandi formaður, verði varaformaður. Þetta staðfestir Stefán Aðalsteinsson framkvæmdastjóri BHM við Kjarnann.
Þórunn er framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, og fyrrverandi þingmaður og umhverfisráðherra fyrir flokkinn. Hún var ein þriggja sem sóttust eftir því að verða formaður BHM, en bandalagið auglýsti eftir nýjum formanni á vefsíðu sinni í lok febrúar. Þetta hefur aldrei verið gert áður, en helgast af þeim óvenjulegu aðstæðum að formaður hætti á miðju kjörtímabili. Það var Guðlaug Kristjánsdóttir sem hætti í desember, vegna mikilla anna í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Guðlaug var kjörin formaður á aðalfundi félagsins í maí 2008 og hafði því verið formaður í sex og hálft ár þegar hún hætti störfum. Þá tók Páll Halldórsson við, en hann hafði verið varaformaður félagsins. Hann sóttist ekki eftir því að verða formaður áfram heldur hyggst taka við varaformannsembættinu á ný.
Sem fyrr segir er aðalfundur BHM 22. apríl næstkomandi. Þótt uppstillingarnefnd hafi lagt til að Þórunn verði formaður geta aðrir boðið sig fram á fundinum með stuðningi síns stéttarfélags.
Bandalag háskólamanna stendur í ströngu þessa dagana, verkföll fyrstu félagsmanna í BHM hófust í morgun og fleiri verkföll eru yfirvofandi. Félagsdómur hafnaði í gær kröfu ríkisins um að verkföll fimm stéttarfélög hafi verið ólöglega boðuð.