Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra segist ætla að beita sér fyrir því að RÚV fari af auglýsingamarkaði og vill horfa til Danmerkur sem fyrirmyndar fyrir íslenska fjölmiðlamarkaðinn – fara „dönsku leiðina“ í málefnum fjölmiðla.
„Þrátt fyrir að ég vilji fá handritin heim vil ég fá dönsku fjölmiðlastefnuna,“ sagði Lilja meðal annars í ávarpi sínu á málþingi sem Blaðamannafélag Íslands og Rannsóknasetur um fjölmiðlun og boðskipti við Háskóla Íslands standa fyrir í húsakynnum Blaðamannafélagsins síðdegis í dag.
Lilja segir að í hennar nýja ráðuneyti menningar- og viðskipta, þar sem fjölmiðlar eru til húsa, verði rýnt „gríðarlega vel“ í danska lagatexta um málefni fjölmiðla og halda áfram á þeirri vegferð sem hófst í upphafi árs 2018.
Í Danmörku er DR ekki á auglýsingamarkaði og stutt er við einkarekna fjölmiðla með nokkrum mismunandi leiðum með það að markmiði að tryggja fjölræði á fjölmiðlamarkaði.
Auglýsingar á RÚV trufli markaðinn
Lilja var hörð á því í ræðu sinni að hún myndi beita sér fyrir því að RÚV fari af auglýsingamarkaði. Hún segir að með því verði ekki tryggt að auglýsingarnar sem í dag eru á RÚV færist yfir á aðra ljósvakamiðla og að hún hafi skilning á þeim sjónarmiðum að það sé þjónusta við neytendur að Ríkisútvarpið selji auglýsingar.
„Ég tel hins vegar og það er mín pólitíska sýn að þetta trufli markaðinn. Og ég mun halda áfram þar,“ sagði Lilja. Hún sagði að styrkja þyrfti við íslenska fjölmiðla, sem væru nokkuð sterkir þrátt fyrir að umgjörð þeirra væri veik í dag.
Nefndi hún fyrir því þau rök að fjölmiðlar veittu nauðsynlegt aðhald í samfélaginu og að án þeirra væri hætta á að lesskilningi ungs fólk myndi hraka. Í ræðu sinni nefndi Lilja einnig að hún vildi auka sanngirni í skattlagningu á milli íslenskra fjölmiðla og erlendra stórfyrirtækja sem selja auglýsingar á netinu.
Átök við þingmenn og fjölmiðla
Ráðherra fjallaði einnig um þau átök sem hafa verið um það opinbera styrkjakerfi við einkarekna fjölmiðla sem tekið var upp á síðasta kjörtímabili.
Lilja sagði málið hafa verið sér erfitt sem ráðherra, átök hafi verið á milli stjórnarflokkanna og við einstaka þingmenn og einnig ákveðna fjölmiðla. Sagðist hún hafa orðið fyrir vonbrigðum með það hvernig sumir fjölmiðlar nálguðust umræðuna um fjölmiðlastyrki. Þar nefndi Lilja sérstaklega bæði Símann og Sýn.
Hún sagði að Sýn hefði lagst „alfarið gegn þessu“ og að hún hafi vitað að það „myndi gerast því það er svolítið í DNA-inu á þessum aðilum og það á líka við um Símann, þeir voru of fínir fyrir þetta. Og þá segi ég bara, ef þið eruð of fínir fyrir þetta, getið þið þá ekki bara vinsamlegast skilað þessum peningum í ríkissjóð svo litlu og meðalstóru fjölmiðlarnir fái þetta, sem hafa ekki jafn sterka bakhjarla og þið,“ sagði Lilja meðal annars, í ræðu sinni.
Síminn rekur ekki fréttaþjónustu og uppfyllti ekki skilyrði fyrir styrkjunum. Félagið fékk því enga styrki og getur ekki skilað þeim. Það skilaði hins vegar umsögn um frumvarp Lilju um styrki til fjölmiðla þar sem lagst var gegn því. Þess í stað vildi Síminn að Alþingi myndi leggja áherslu á að beina ríkisstuðningi í þá veru að styrkja fjölmiðla sem sinna þýðingum á efni. Á meðal þeirra sem það gera er Síminn.