Alls taka 207 aðilar þátt í hópmálsókn á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni, fjárfesti og fyrrum aðaleiganda Landsbanka Íslands, sem þingfest verður fyrir héraðsdómi á morgun. Á meðal þeirra sem taka þátt í málsókninni eru Karen Millen, Kristján Loftsson í Hval, Bolli Héðinsson hagfræðingur, Svana Helen Björnsdóttir, fyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins, Lífeyrissjóður verkfræðinga, Lífeyrissjóður starfsmanna íslenskra sveitarfélaga, lífeyrissjóðurinn Stapi og Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Þeir sem að málsókninni standa búist við því að fleiri bætist í hópinn. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Greint var frá því í júní að hópur fyrrum hluthafa gamla Landsbankans væri búinn að stofna hópmálsóknarfélag og ætlaði að stefna Björgólfi Thor fyrir að dylja raunverulegt eignarhald sitt í bankanum svo hann þyrfti ekki að upplýsa um stórtæk lánaviðskipti sín við hann og fyrir að bregðast ekki við þegar yfirtökuskylda á bankanum myndaðist á árinu 2006. Erfiðlega gekk að birta Björgólfi Thor stefnu í málinu en það hefur nú tekist. Í því verður ekki sóst eftir sérstökum bótum heldur verður látið reyna á hvort bótaskylda sé fyrir hendi. Reynist hún vera fyrir hendi verður reynt að finna út hvert mögulegt tjón hluthafanna var.
Björgólfur Thor hafnar ásökunum hópsins. Hann segir málsóknina gróðrabrall lögmanna sem að henni standa og áskilur sér rétt til að sækja bætur til félagsmanna í hópmálsóknarfélaginu fyrir rangar sakagiftir. Félagið fékk Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmann til að vinna fyrir sig lögfræðiálit um þetta atriði. Niðurstaða hans, samkvæmt frásögn Fréttablaðsins, er sú Björgólfur Thor geti ekki sótt bætur til félagsmanna á þessum forsendum.
Margra ára aðdragandi
Undirbúningur málshöfðunarinnar hefur staðið frá árinu 2011 þegar heilsíðuauglýsingar birtust í íslenskum dagblöðum þar sem skorað var á hluthafa í gamla Landsbankanum að taka þátt í mögulegri hópmálsókn gegn Björgólfi Thor. Á meðal þeirra sem stóðu að undirbúningnum var Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og lögmaðurinn Ólafur Kristinsson. Síðan þá hefur undirbúningur málshöfðunarinnar staðið yfir og hópurinn hefur meðal annars höfðað vitnamál á hendur Björgólfi Thor og samstarfsmanni hans til að nálgast ákveðnar upplýsingar. Auk þess hefur hópurinn fengið gögn frá slitastjórn gamla Landsbankans við undirbúninginn.Í Kastljósi í júní, þar sem fjallað var um málsóknina, kom fram að málið hafi verið kynnt fyrir þeim lífeyrissjóðum sem áttu hlut í Landsbankanum á árunum 2005 til 2008 og að þeir séu að skoða þátttöku í málsókninni. Ný er ljóst að að minnsta kosti þrír þeirra ætla að taka þátt. Alls voru hluthafar í gamla Landsbankanum um 25 þúsund talsins þegar hann féll haustið 2008.
Yfirtökuskylda og of há lán
Í umfjöllun Kastljós kom meðal annars fram að hópurinn telji að Björgólfur Thor hafi með skipulegum hætti, og með þátttöku starfsmanna sinna, unnið að því að koma í veg fyrir að upplýsingar um umfang lánveitinga bankans til Björgólfs Thors. birtust opinberlega. Þetta hafi verið gert með því að dylja hversu stóran hlut Björgólfur Thor hafi raunverulega átt í bankanum.Í stefnunni í málinu kemur fram að lán Landsbankans til Björgólfs Thor hafi verið langt umfram heimildir á árinu 2005 og að á árinu 2006 hafi eignarhald Landsbankans þjappast það mikið saman að það hafi myndast yfirtökuskylda á Björgólf Thor, sem hann hafi hunsað. Með því hafi hann brugðist þeirri skyldu sinni að vernda lögbundin réttindi minni hluthafa í bankanum.