Átakið „Útkall í þágu vísindanna“, þar sem Íslensk erfðagreining bauð yfir 100 þúsund landsmönnum að taka þátt í samanburðarhópi fyrir rannsóknir fyrirtækisins, skilaði um 34 þúsund nýjum lífssýnum til fyrirtækisins. Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í samtali við Kjarnann. Því skilaði um þriðjungur þeirra sem fengu senda möppu með eyðublöðum til staðfestingar upplýsts samþykkis og munnspaða, sem viðtakendur áttu að nota við sýnatöku, sýnum sínum til Íslenskrar erfðagreiningar.
Möppurnar með munnspöðunum voru sendar út í maí síðastliðnum og samhliða var blásið til mikillar kynningarherðferðar á átakinu. Það fór fram í samvinnu við slysavarnarfélagið Landsbjörgu, sem sá um að safna lífsýnunum fyrir hönd Íslenskrar erfðagreiningar. Fyrir hvert sýni sem björgunarsveitarmenn sóttu heim til þeirra sem fengu þau send greiddi Íslensk erfðagreining 2.000 krónur. Því fékk Landsbjörg um 68 milljónir króna fyrir þátttöku sína í átakinu.
Deilurnar standa uppúr
Miklar deilur spruttu upp um átakið. Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og nokkrir aðrir fræðimenn sendu til að mynda frá sér tilkynningu þar sem kom fram að meginatriði í siðfærði rannsókna væri að fólk taki ákvarðanir byggðar á vitneskju og trausti án þess að vera beitt þrýstingi til þátttöku. Fjöldi vísindamanna sendi í kjölfarið frá sér yfirýsingu þar sem þeir studdu átakið og ítrekuðu mikilvægi þess.
Kári segir að fyrir honum standi upp úr þessu ferli að það skyldi enn einu sinni valda deilum í íslensku samfélagi um að það sé verið að reyna að fá fólk til þátttöku í vísindarannsóknum. „Ég er enn svolítið hissa á því að Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, til dæmis, skuli finnast í því felast mikil áhætta fyrir fólk að taka þátt í vísindarannsóknum. Að henni finnist það ljótt að menn séu hvattir til að taka þátt í tilraunum til að sækja nýja þekkingu. Ég átta mig ekki á því hvaðan þetta fólk kemur né hvert þetta fólk er að fara. En greinilega er til fleiri en ein tegund af fólki í þessu samfélagi. Og það er gott.“
Eins og við var búist
Að sögn Kára var þátttakan eins og við hafði verið búist. „Við fengum í kringum 34 þúsund nýja þátttakendur, sem er svipað því sem við bjuggumst við. Þegar þú sendir út svona án þess að reyna að fá fólk til þátttöku í einhverjum sérstökum rannsóknum þá er þetta það sem má búast við. Það er markmiðið og við erum býsna sátt við niðurstöðuna.“