74. þing Norðurlandaráðs fer fram 31. október til 3. nóvember í Helsinki en þar koma saman þingmenn, forsætisráðherrar, utanríkisráðherrar og aðrir ráðherrar frá öllum Norðurlöndunum. Þá verður Sauli Niinistö, forseti Finnlands, gestaræðumaður á þinginu þar sem hann mun fjalla um þýðingu norræns samstarfs í ljósi breyttrar stöðu í öryggismálum.
Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og er opinber samstarfsvettvangur norrænu þjóðþinganna. Ráðið skipa 87 þingmenn frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð, auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands.
Allir aðalmenn Íslandsdeildar Norðurlandaráðs munu sækja þingið sem hefst á mánudag. Þau sem fara eru Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður landsdeildarinnar, Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri grænna.
Að venju funda forsetar norrænu þinganna í tengslum við Norðurlandaráðsþing og fer Birgir Ármannsson, forseti Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem fulltrúi Alþingis. Þá fer Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, sem fulltrúi Vestnorræna ráðsins sem fundar alltaf með Norðurlandaráði í tengslum við þingin.
Samkvæmt upplýsingum frá utanríkismálaráðuneytinu sækja þrír ráðherrar þing Norðurlandaráðs í ár og að þessu sinni eru það þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, en hann er einnig samstarfsráðherra Norðurlanda, og Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Sjónum beint að framtíðarhlutverki Norðurlanda í alþjóðasamfélaginu
Stjórnmálalandslagið hefur tekið miklum breytingum frá því að þing Norðurlandaráðs kom síðast saman í Kaupmannahöfn í byrjun nóvember í fyrra. Nýjar áskoranir blasa við Norðurlöndunum eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst í febrúar. Framtíðarhlutverk Norðurlanda í heiminum verður þema leiðtogafundar þingsins í ár þar sem áhersla verður lögð á öryggisáskoranir, stríðið í Úkraínu og orku- og loftslagsvandann.
Á leiðtogafundi Norðurlandaráðs 1. nóvember verður sjónum beint að framtíðinni það sem meðal annars verður fjallað um hlutverk Norðurlanda í heiminum. Áhersla verður lögð á stöðuna sem upp er komin í öryggismálum í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Einnig verður fjallað um loftslagsmál og þann orkuvanda sem heimili og fyrirtæki á Norðurlöndum eru nú þegar farin að finna fyrir. Hvað varðar samstarf innan Norðurlanda munu umræðurnar snúast um afhendingaröryggi, stjórnsýsluhindranir og framtíð velferðarlíkansins, líkans sem mjög reyndi á í kórónuveirufaraldrinum.
Leiðtogafundurinn er hluti af framtíðarumræðum sem Finnland hefur sem formennskuland í Norðurlandaráði ákveðið að standa fyrir á árinu 2022. Á næsta ári gengur formennskan til Noregs.