Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, kveðst hafa tryggt væntanlegu áfengislagafrumvarpi sínu þrjátíu atkvæði á Alþingi. Þetta fullyrðir Vilhjálmur í samtali við Kjarnann. Hann segir stuðninginn koma úr flestum flokkum þingsins, enn þó eigi enn nokkrir þingmenn eftir að gera upp hug sinn. Á Alþingi Íslendinga eiga sæti 63 þingmenn.
Boðað frumvarp um breytingar á áfengislöggjöfinni, kveður á um að heimilt verði að selja áfengi í matvöruverslunum.
Vilhjálmur vinnur nú að því að klára meðflutningsmannalistann fyrir frumvarpinu, en hann stefnir engu að síður að því að leggja það fram á Alþingi á fimmtudaginn. Þá verður það þingsins að setja frumvarpið á dagskrá.
"Það hefur gengið ágætlega að afla frumvarpinu stuðnings, þrátt fyrir töluverðan mótvind, enda margir á móti því. Ég er samt alltaf að verða bjartsýnni og bjartsýnni á að það verði samþykkt, en niðurstaðan ræðst af meðförum þingsins á frumvarpinu," segir Vilhjálmur í samtali við Kjarnann.