Þrotabú Landsbankans hefur ákveðið að stöðva tímabundið framsal lýstra forgangskrafna í búið. Stöðvunin gildir frá og með deginum í dag, 8. desember. Í tilkynningu á vef þrotabúsins segir að þessi stöðvun sé „nauðsynleg til þess að slitastjórn gefist færi á að uppfæra kröfuskrá í tengslum við undirbúning að hlutagreiðslum sem ráðgert er að fari fram fyrirlok ársins“. Sú hlutagreiðsla er upp á 400 milljarða króna.
Á fimmtudag var tilkynnt um að uppgjörsamningi milli þrotabús Landsbankans og nýja Landsbankans vegna skuldar býja bankans við þann gamla. Sú skuld var hluti af samkomulagi sem undirritað var í desember 2009. Samkvæmt því samkomulagi átti nýi bankinn að greiða þrotabúi þess gamla nokkur hundruð milljarða króna, í erlendum gjaldeyri, vegna mismunar á virði eigna sem færðar höfðu verið yfir til hans við stofnun. Lokagreiðsla vegna þessarrar skuldar átti að vera í október 2018.
Fengu undanþágu fyrir forgangskröfur
Í byrjun síðustu viku voru eftirstöðvar þeirrar skuldar 226 milljarðar króna. Á fimmtudag var síðan tilkynnt um að uppgjörssamningur hefði náðst sem fól í sér að ný skuldabréf vorugefin út. Þau eru upp á 196 milljarða króna og eru til greiðslu á árunum 2016 til 2026. Það sem upp á vantar, um 30 milljarða króna í erlendum gjaldeyri, var greitt inn á skuld nýja Landsbankans við þrotabú þess gamla.
Í tilkynningu vegna þess kom fram að gildistaka uppgjörsamninganna byggði á því að þrotabú Landsbankans myndi fá samþykktar undanþágur frá gjaldeyrishöftum til að greiða „innheimt reiðufé í erlendum gjaldmiðlum að jafnvirði um 400 milljarðar króna upp í forgangskröfur[...]auk vilyrðis fyrir frekari undanþágum frá gjaldeyrishöftum í sama skyni“.
Upphafleg krafa búsins um að greiðslur af skuldabréfi Landsbankans yrðu tekin alfarið út fyrir höft var því ekki samþykkt.
Því er ljóst að þrotabú Landsbankans fékk einungis undanþágur frá höftum til að greiða út forgangskröfur. Upphafleg krafa búsins um að greiðslur af skuldabréfi Landsbankans yrðu tekin alfarið út fyrir höft var því ekki samþykkt.
Forgangskröfur í bú Landsbankans námu 1.328 milljörðum króna. Þorri þeirra var vegna Icesave-reikninganna svokölluðu og stærsti forgangskröfuhafinn er breski innstæðutryggingasjóðurinn sem greiddi tryggingu til þeirra Breta sem geymdu fé á reikningunum.