Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að hækka þurfi lífeyrisaldur til að mæta þeirri stöðu sem snýr að hinu opinbera í lífeyrissjóðakerfinu. Ófjármagnaðar skuldbindingar ríkisins og sveitarfélaga nema 600 til 700 milljörðum króna, þar af eru um 100 milljarðar á ábyrgð sveitarfélaga.
Þetta er góð ábending hjá Halldóri og rétt mat, það virðist óumflýjanlegt að hækka lífeyrisaldurinn og jafnvel skerða réttindi enn frekar. Stjórnmálamenn hafa ýtt þessum vanda á undan sér lengi, og hafa nú skapað tímasprengju fyrir hagkerfið sem nauðsynlegt er að aftengja.
Líklega er eitt færi til þess að laga þessa stöðu betra en önnur. Það er fjármagnið sem mun kom í hlut ríkissjóðs frá slitabúum föllnu bankanna. Það ætti að nota til þess að greiða niður skuldbindingar hins opinbera, alveg tvímælalaust, og þessi skuld sem er í lífeyrissjóðakerfinu er öllum sýnileg. Vonandi freistast stjórnmálamenn ekki til þess að ýta þessum vanda enn lengra inn í framtíðina, því það kemur alltaf að skuldadögum.