Nefnd á vegum forsætisráðuneytisins vinnur nú að tillögum að heildstæðri löggjöf um fjárfestingar í þýðingamiklum samfélagsinnviðum og tengdri starfsemi vegna þjóðaröryggis. Búist er við því að nefndin skili tillögum sínum í janúar á næsta ári. Þetta kemur fram í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans.
Kjarninn hefur áður fjallað um fyrirhugaða sölu íslenskra fjarskiptafyrirtækja á innviðum, en bæði Sýn og Síminn hafa tilkynnt sölu á innviðum sínum til erlendra fjárfesta. Kaupendur á innviðum Sýnar er bandaríski fjárfestingasjóðurinn Digital Colony, en franska sjóðsstýringarfyritækið Ardian France SA hyggst kaupa Mílu, innviðahluta Símans. Hvorug viðskiptin hafa þó enn átt sér stað, þar sem enn er beðið eftir samþykki frá yfirvöldum.
Morgunblaðið greindi frá því fyrir tveimur vikum síðan að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra væri með löggjöf í undirbúningi sem feli í sér rýni á erlendum fjárfestingum í mikilvægum innviðum landsins. Þar sagði hún frumvarpið byggja á reynslu annarra Norðurlandaþjóða.
Samkvæmt svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans er unnið að tillögu að slíku frumvarpi innan sérstakrar nefndar innan ráðuneytisins núna. Búast megi við að þessar tillögur verði tilbúnar í janúar á næsta ári og að ákvörðun um framhald málsins verði tekin í kjölfarið.
Fyrir tveimur árum síðan tók í gildi breyting á norsku öryggislögunum sem heimilar rýni á allri fjárfestingu, innlendri sem erlendri, á meiri en þriðjungshlut í þjóðhagslega mikilvægum innviðum. Í Danmörku tóku sömuleiðis gildi ný lög um rýni á erlendri fjárfestingu á ákveðnum sviðum í júlí, en þau taka tillit til allra erlendra fjárfestinga í sérlega viðkvæmum greinum sem skilgreind eru í lögunum.
Í Svíþjóð eru ekki til staðar heildarlög um fjárfestingarýni en unnið er að tillögum til slíkra heildarlaga sem liggja munu fyrir annaðhvort síðar á þessu ári eða því næsta. Í Finnlandi hafa um langt skeið verið í gildi reglur um rýni erlendrar fjárfestingar í ákveðnum mikilvægum geirum, auk þess sem árið 2019 settu Finnar sérstök lög sem fela í sér að fasteignakaup aðila í ríkjum utan EES-svæðisins eru háð leyfi og um leið rýni ráðuneytis varnarmála.