Framkvæmdahópur um losun hafta hefur staðfest að tillögur slitabú Glitnis, Kaupþings og Landsbankans um að mæta stöðugleikaskilyrðum stjórnvalda falli innan þess ramma sem stýrihópur um losun hafta hafði samþykkt og mælir með því að þeir fái undanþáguheimild frá höftum til að ljúka nauðasamningum á grundvelli tillögu sinnar. Þetta kemur fram á heimasíðu fjármálaráðuneytisins.
Vert er að taka fram að þeir fulltrúar slitabúanna sem lögðu fram tillögurnar eru einungis fulltrúar hluta kröfuhafa, en þeirra stærstu í hverju búi fyrir sig. Enn á eftir að leggja tillögurnar fyrir á kröfuhafafundi og sækja samþykki aukins meirihluta kröfuhafa um að fara þá leið sem nú hefur verið lögð fram.
Þar segir einnig að meðlimir framkvæmdahóps Íslands um losun gjaldeyrishafta (stofnaður af fjármálaráðuneytinu og Seðlabanka Íslands árið 2014) og ráðgjafar þeirra hafi haldið röð upplýsingafunda undanfarna tvo mánuði, m.a. með fulltrúum lítils hóps fjárfesta sem eiga verulegar kröfur í bú þriggja stóru íslensku bankanna sem urðu greiðsluþrota árið 2008, Glitnis, Kaupþings og Landsbankans. "Framkvæmdahópurinn hefur einnig tekið við tillögum frá kröfuhöfum sem sótt hafa þessa fundi um valfrjálsar ráðstafanir að þeirra frumkvæði sem gerðar eru með það í huga að hlutleysa þá ógn sem að greiðslujöfnuði stafar vegna innlendra eigna í búunum. Í þessum tillögum er íhugað að bregðast við þeirri ógn bæði með greiðslu stöðugleikaframlags ásamt öðrum ráðstöfunum sem ætlað er draga úr útflæði króna sem hafa verið fastar í gjaldeyrishöftum og efla gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands," segir ennfremur í fréttinni.
Í niðurlagi umfjöllunar um tillögu hvers og eins slitabús segir að framkvæmdahópurinn hafi staðfest að tillögur kröfuhafa þeirra allra "séu í samræmi við rammann sem studdur er af stýrinefndinni og leggur til að veitt verði undanþága á grundvelli tillagna kröfuhafa í slitabú". Veiti Seðlabanki Íslands undanþágu frá höftum á grundvelli tilagna kröfuhafanna skulu þær eignir sem ekki lengur sæta höftum vera tiltækar til útgreiðslur til kröfuhafa í slitabúið í samræmi við þá málsmeðferð sem kveðið er á um í íslenskum lögum. Eignir búsins skulu í framhaldinu ekki sæta gjaldeyrishöftum á Íslandi og þá hvorki búið eða kröfuhafar þess greiða stöðugleikaskatt í neinni mynd eða sambærilega skatta eða gjöld.
Tillaga Kaupþings
Tillaga Kaupþings kveður meðal annars á um stöðugleikaframlag til stjórnvalda sem felst í 84 milljarða króna verðtryggðs skuldabréfs að nafnvirði í íslenskum krónum. Kaupþing framselur jafnframt eignir, réttindi og kröfur búsins á hendur tilteknum innlendum aðilum að nafnverði um það bil 114,8 milljarðar króna. Skilmálar verðtryggða skuldabréfsins gera ráð fyrir tveimur jöfnum afborgunum, tveimur og þremur árum eftir útgáfu þess. Vextir verða 5,5 prósent og verður tryggt með veði í skuldabréfum útgefnum í evrum til meðallangs tíma.
Þá verður söluvirði sem fæst í 87 prósenta hluta Kaupþings í Arion banka við sölu bankans, umfram 100 milljarða króna, milli Seðlabankans eða öðrum aðila sem Seðlabankinn tilgreinir. Ef upphæðin nemur á bilinu 100 til 140 milljörðum fær Seðlabankinn til sín þriðjung söluvirðis umfram 100 milljarða, upp að 160 milljörðum fær bankinn helming söluvirðisins og 75 prósent söluvirðis umfram 160 milljarða króna.
Tillaga Glitnis
Í tillögu Glitnis kemur fram að í kjölfar fundar sem haldin var 2. júní síðastliðinn lagði Akin Gump LLP, lögfræðilegur ráðgjafi stórs hluta kröfuhafa Glitnis, fram tillögu til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, um hvernir Glitnir ætlaði sér að mæta stöðugleikaskilyrðunum. Tillagan er dagsett í dag, 8. júní.
Á meðal þess sem fram kemur í tillögu Glitnis er að slitabúið muni greiða í stöðugleikaframlag 58 milljarða króna greiðslu af lausum íslenskum krónum sem eru í slitabúi Glitnis, þar á meðal 37 milljarða króna þær aðgreiðslu sem Íslandsbanki (í 95 prósent eigu Glitnis) hefur ætlað að greiða búinu. Auk þess fá íslensk stjórnvöld kröfur á aðra innlenda aðila upp á 59 milljarða króna og skuldabréf upp á 119 milljarða króna sem munu bera 5,5 prósent vexti. Skuldabréfin verða greidd upp þegar Glitni tekst að selja 95 prósent hlut sinn í Íslandsbanka eða þremur árum eftir að það verður gefið út gangi sú sala ekki eftir.
Auk þess fá íslensk stjórnvöld greiðslur vegna allra krafna í íslenskum krónum sem Glitnir gæti mögulega fengið vegna innlenda aðila, alls upp á 14 milljarða króna, og allar greiðslur sem Glitnir gæti fengið í íslenskum krónum vegna dómsmála sem höfðað hafa verið en er ekki lokið.
Glitnir má halda eftir fimm milljörðum króna í íslenskum krónum til að greiða fyrir allan kostnað í krónum sem fellur til árin 2015, 2016 og 2017 og greiða á innlendum aðilum.
Tillaga Landsbankans
Tillögur Landsbanka Íslands gera ráð fyrir að í stöðugleikaframlagi til stjórnvalda séu allar lausafjáreignir þrotabúsins í íslenskum krónum. Auk þess verða kröfur búsins á hendur tilteknum innlendum aðilum framseldar. Virði krafna er metið um 9,5 milljarðar króna. Sérstaklega er tekið fram að skuldabréfið milli gamla og nýja Landsbankans sé ekki hluti af samningnum. Sama gildir um Avens-skuldabréf, skuldbréf útgefið af Landsvirkjun og kröfur í þrotabú Baugs, BG Holding, Kaupþing og Glitni.