Það kom mörgum á óvart þegar Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tilkynnti öllum að óvörum síðdegis í gær að hún ætli að bjóða sig fram gegn Árna Páli Árnasyni, sitjandi formanni Samfylkingarinnar, á landsfundi flokksins sem hefst í dag.
Framboðið hefur valdið miklum titringi innan flokksins, en framboð Sigríðar er ekki hægt að túlka öðruvísi en svera vantraustsyfirlýsingu á sitjandi formann, og það úr hans eigin þingflokki.
Frestur til að bjóða sig fram á móti sitjandi formanni í allsherjaratkvæðagreiðslu rann út fyrir margt löngu. Það þýðir að einungis fulltrúar landsfundarins munu velja á milli Sigríðar Ingibjargar og Árna Páls, en hann náði einmitt kjöri í allsherjaratkvæðagreiðslu. Hvort slík landsfundarkosning er líkleg til að styrkja stöðu Samfylkingarinnar eða formanns flokksins skal ósagt látið, en að minnsta kosti verður landsfundurinn spennandi.
En í hvernig stöðu er Samfylkingin? Flokknum virðist lífsins ómögulegt að hefja sig til flugs eftir afhroð í síðustu Alþingiskosningum, þegar fylgistap flokksins sló í alvörunni met, þrátt fyrir endurtekin vandræði ríkisstjórnarinnar. Enda er það furða þegar flokkurinn virðist ekki hafa myndað sér skýra stefnu í stærstu málunum, svo sem ríkisfjármálum kjaramálum, húsnæðismálum o.s.frv.? Fyrir utan það hvað það er í raun ótrúlega merkilegt að jafnaðarflokkurinn nái ekki einu sinni að sækja í sig veðrið í fordæmalausri stöðu á vinnumarkaði.
Pæling Kjarnans: Er Sigríður Ingibjörg líklegri til að rífa upp fylgi Samfylkingarinnar en Árni Páll? Er líklegt að kjósendur fylki sér á bakvið flokk sem helst hefur tönglast á að innganga í Evrópusambandið muni bjarga Íslandi? Núna, þegar sami flokkur hefur meira að segja daðrað við efasemdir um inngöngu, sem auðvelt er að túlka sem mikið veikleikamerki. Dugar það Samfylkingunni að skipta bara um formann?
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.