Rúmlega tíu prósent íbúa á Íslandi fæddust í öðru landi. Á lista Sameinuðu þjóðanna um hlutfall innflytjenda í löndum heimsins er Ísland í 89. sæti af 232 ríkjum. Næst á eftir Íslandi á lista koma Belgía, Grænland og Danmörk en í síðast nefnda landinu er hlutfallið 9,9 prósent.
Fréttasíðan FiveThirtyEight birti nýlega umfjöllun um hlutfall innflytjenda í ríkjum heimsins sem byggir á nýjustu gögnun Sameinuðu þjóðanna frá 2013. Fram kemur að í heild hefur hlutfallið lítið breyst frá 1960. Þá bjuggu 2,6 prósent jarðarbúa í öðru landi en það fæddist í. Sama hlutfall árið 2013 var 3,2 prósent.
Efst ríkja á listanum er Vatíkanið en allir íbúar ríkisins eru innflytjendur, það er þeir fæddust í öðru ríki. Í Sameinuðu arabísku furstadæmunum er hlutfall innflytjenda 83,7 prósent en stór hlutfall vinnuafls þar er frá öðrum löndum.
Anstæðurnar eru algjörar á lista Sameinuðu þjóðanna. Í Kína, á Kúbu, í Indónesíu, á Madagaskar og í Víetnam er hlutfall innflytjenda af íbúafjölda um 0,1 prósent.
Ef litið er sérstaklega til nágrannaríkja Íslands þá er hlutfallið efst í Svíþjóð, eða 15,9 prósent. Í Noregi er það 13,8 prósent og í Finnlandi 5,4 prósent. Í Danmörku er hlutfallið 9,9 prósent og 10,4 prósent á Íslandi.