Tíu íslensk útgerðarfyrirtæki högnuðust um tæpa 46 milljarða króna frá árinu 2009, eftir skatta afskriftir og vaxtagjöld. Þetta kemur fram í upplýsingum sem Creditinfo tók saman að beiðni Kjarnans. Sex fyrirtækjanna eiga enn eftir að skila ársreikningum fyrir árið 2013 og því er viðbúið að talan eigi eftir að hækka enn frekar.
Samanlagðar bókfærðar heildareignir félaganna nema rúmum 123 milljörðum króna, og eigið fé þeirra, það er eignir að frádregnum skuldum, hljóðar upp á röska 76 milljarða króna.
Félögin sem um ræðir eru Brim hf., Gjögur hf., FISK-Seafood ehf., Samherji Ísland ehf., Bergur-Huginn ehf., Stálskip ehf., Úgerðarfélag Akureyringa ehf., Útgerðarfélagið Vigur ehf., KG Fiskverkun ehf., og Stígandi ehf.
Fimm útgerðarfyrirtæki sem högnuðust mest
Úgerðarfélagið Brim hf., sem er í eigu forstjórans Guðmundar Kristjánssonar, skilaði tæplega 12,5 milljarða króna hagnaði á árunum 2009 til 2012. Félagið á enn eftir að skila ársreikningi fyrir árið 2013, en í lok árs 2012 námu eignir þess tæpum 21,5 milljörðum króna, og eigið fé fyrirtækisins var þá rúmir ellefu milljarðar króna.
Hagnaður útgerðarfélagsins Gjögurs á Grenivík á árunum 2009 til 2012 hljóðaði upp á rúma 7,3 milljarða króna, en fyrirtækið á enn eftir að skila inn ársreikningi fyrir árið 2013. Félagið átti eignir upp á röska 19 milljarða króna í árslok 2012, og tæpa 5,7 milljarða króna í eigið fé.
FISK-Seafood á Sauðárkróki hagnaðist um tæpa sjö milljarða króna á árunum 2009 til 2013. Heildareignir félagsins námu tæpum 17 milljörðum í árslok 2013, en félagið átti þá tæpa 15,5 milljarða króna í eigið fé.
Útgerðarfyrirtækið Samherji Ísland ehf. á Akureyri, sem er í eigu frændanna Kristjáns Vilhelmssonar og Þorsteins Más Baldvinssonar, hefur ekki skilað inn ársreikningi fyrir árið 2013. Á árunum 2009 til 2012 hagnaðist útgerðarfyrirtækið um ríflega 4,3 milljarða króna. Heildareignir fyrirtækisins í lok árs 2012 námu tæpum 31,2 milljörðum króna, og félagið átti þá röska 9,6 milljarða eigið fé. Þó tilgreint félag hafi ekki enn skilað inn ársreikningi fyrir árið 2013 má geta þess að hagnaður Samherja samstæðunnar á síðasta ári nam 22 milljörðum króna.
Bergur-Huginn ehf. í Vestmannaeyjum, sem Síldarvinnslan í Neskaupstað reyndi að kaupa í ágústmánuði árið 2012 af félagi í eigu Magnúsar Kristinssonar, hagnaðist um rúma þrjá milljarða króna árin 2009 til 2013. Heildareignir félagsins hljóðuðu upp á rúman 4,1 milljarð króna í árslok 2013, og þá átti Bergur-Huginn ríflega 1,2 milljarða króna í eigin fé.
Samtals högnuðust ofangreind félög um að minnsta kosti ríflega 34 milljarða króna á síðustu fimm árum. Eins og áður segir eiga þrjú útgerðarfyrirtækjanna enn eftir að skila ársreikningum fyrir árið 2013 og því er talan ekki tæmandi.
Athygli er vakin á því að einungis er um að ræða upplýsingar um fyrirtæki sem sinna útgerð á smábátum eða fiskiskipum á Íslandi.