Tólf starfsmönnum MP banka var í dag sagt upp störfum, átta körlum og fjórum konum, í tengslum við samruna MP banka og Straums fjárfestingabanka. Samruninn gekk formlega í gegn í dag en hluthafar kusu nýja sjö manna stjórn. Hildur Þórisdóttir, starfsmannastjóri MP banka, staðfestir í samtali við Kjarnann að tólf hafi verið sagt upp í dag, af ýmsum sviðum.
Sameinaður banki, sem sameinast undir kennitölu MP banka, mun starfa undir nafninu MP Straumur þar til nýtt nafn verður kynnt. Skipulagi bankans breytt í dag en það samanstendur af fjórum einingum, eignastýringu, markaðsviðskiptum, fyrirtækjasviði og alþjóðasviði.
Yfirmenn í sameinuðum banka verða eftirfarandi: Sigurður Hannesson verður framkvæmdastjóri eignastýringar, Bjarni Eyvinds Þrastarson verður framkvæmdastjóri markaðsviðskipta en hann var áður framkvæmdastjóri markaða, Ásgeir Helgi Reykfjörð, fyrrum yfirlögfræðingur MP banka, verður framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, og framkvæmdastjóri alþjóðasviðs verður Magnús Bjarnason, nýr starfsmaður bankans. Þá verður Magnús Ingi Einarsson,fyrrum framkvæmdastjóri fjármála hjá Straumi, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs, Hildur Þórisdóttir verður markaðs- og mannauðsstjóri, Thomas Skov Jensen verður forstöðumaður áhættustýringar, Birna Hlín Káradóttir verður yfirlögfræðingur og Daníel Pálmason verður regluvörður bankans.
Magnús Bjarnason starfaði áður sem forstjóri Icelandic Group á árunum 2012 til 2014. Fyrir þann tíma starfaði hann meðal annars sem framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, alþjóðasviðs Íslandsbanka og dóttur fyrirtækis þess í Bandaríkjunum Glitnir Capital Corporation sem síðar varð Glacier Partners. Magnús var einnig viðskiptafulltrúi og aðalræðismaður Íslands í New York á árunum 1997 til 2003. Hann tekur til starfa hjá MP Straumi þann 1. ágúst næstkomandi, að því er fram kemur í tilkynningu sem send var fjölmiðlum í kvöld.
Í tilkynningunni segir Sigurður Atli Jónsson, forstjóri bankans, að vinnu við sameiningu sé alls ekki lokið. „Þetta eru stór tímamót og ástæða til að fagna því hversu vel þessi sameining hefur gengið fyrir sig. Vinnu við sameininguna er þó alls ekki lokið. Mikið verk er framundan við að sameina fyrirtækin og allt það góða starfsfólk sem hér starfar.“