Tæknirisinn Google hefur formlega tilkynnt að tónlistar- og kvikmyndaveitur fyrirtækisins séu nú orðnar aðgengilegar almenningi á Íslandi. Google póstaði ákvörðun sinni í gær á Google+. Fréttavefmiðillinn Venture Beat greinir frá málinu, og sömuleiðis Nútíminn.
Ísland var í hópi níu þjóða sem fengu aðgang að kvikmyndaveitu Google, Google Play, og í hópi þrettán þjóða sem nú hafa fengið aðgang að tónlistarveitu fyrirtækisins, Google Play music store. Í grein Venture Beat er vakin athygli á því að Apple hafi enn ekki veitt þremur þjóðum sem nú bættust við þjónustusvæði veitna Google, Íslandi, Makedóníu og Bosníu, aðgang að iTunes þjónustu fyrirtækisins og Google hafi litið á það sem sóknarfæri. Þar að auki hefur Apple ekki veitt Króatíu aðgang að tónlistarhluta iTunes, en Króatía er á meðal þeirra þjóða sem nú hafa fengið aðgang að tónlistarveitu Google.
Í dag hafa yfir hundrað þjóðir aðgang að kvikmyndaveitu Google. Tónlistarveitu Google er stillt upp til höfuð Spotify, sem hefur sótt hratt fram á heimsvísu að undanförnu.
Samkvæmt frétt Nútímans er hægt að kaupa og leigja kvikmyndir í Google Play Movies, en sumar myndir sé einungis hægt að kaua og þá sé algengt verð 1.500 til 2.000 krónur. Leiguverð á kvikmyndum er frá 350 upp í 460 krónur fyrir nýjustu myndirnar sem kvikmyndaveitan býður upp á. Hægt er að horfa á kvikmyndir Google Play Movies í tölvum, Android- og iOS-símum og þá er sömuleiðis hægt að nota Chromecast búnaðinn til þess að horfa á kvikmyndaveituna, en hann er nokkurs konar svar Google við Apple TV, sem hefur náð töluverðri útbreiðslu á Íslandi.