Kjaraviðræður tónlistarkennara við Samband íslenskra sveitarfélaga hafa siglt í strand, og félagsmenn í Félagi tónlistarkennara (FT) munu um helgina kjósa um hvort knýja eigi fram leiðréttingu á kjörum sínum með verkfalli. Þetta kemur fram í Skólavörðu Kennarasambands Íslands (KÍ), sem kemur út í dag.
FT býðst aðeins brot af þeim kjarabótum sem önnur félög innan kennarasambandsins hafa náð síðustu misseri. Tónlistarkennarar eru í dag með allt að 39 prósentum lægri laun en framhaldsskólakennarar, en tilboð viðsemjenda þeirra hljóðar upp á 2,8 prósenta launahækkun. Kjarasamningur FT við Samband íslenskra sveitarfélaga rann út um síðustu áramót, en eftir árangurslausar samningaviðræður sem hófust í byrjun desember, vísaði viðræðunefnd FT deilunni til ríkissáttasemjara í júní. Samningaviðræður hafa þar með staðið yfir í um tíu mánuði án árangurs. Í millitíðinni hafa öll önnur félög KÍ skrifað undir samning við sína viðsemjendur.
Í bréfi sem Sigrún Grendal, formaður FT, sendi félagsmönnum sínum á dögunum eru vinnubrögð viðsemjenda harðlega gagnrýnd. "Lögmálið virðist vera að það þurfi að sýna með óyggjandi hættti að okkur sé alvara - að við séum tilbúin til að fylgja eftir okkar kröfum." Atkvæðagreiðsla félagsmanna í FT um verkfall lýkur í dag.
Samþykki félagsmenn FT að leggja niður störf hefst ótímabundið verkfall þeirra miðvikudaginn 22. október, að því gefnu að ekki náist samningar í millitíðinni.
Samkvæmt bréfi formanns FT, hafa viðsemjendur félagsins aðeins lagt fram eitt formlegt tilboð í viðræðunum. Það hljóðaði upp á 2,8 prósenta launahækkun fram á næsta vor. Þá hefur verið ámálgað við samninganefnd FT óformlegt tilboð upp á 4,4 prósenta hækkun.
Tónlistarkennarar beittu verkfallsvopninu síðast árið 2001, en þá reiknaðist FT til að laun tónlistarkennara væru um 17 prósentum lægri en laun grunnskólakennara og 33 prósentum lægri en laun framhaldsskólakennara. Samkvæmt upplýsingum frá KÍ munar nú allt að 37 prósentum á launum tónlistarkennara og grunnskólakennara, og laun framhaldsskólakennara eru allt að 39 prósentum hærri en laun tónlistarkennara eins og áður segir.