Tónlistarhátíðir eru góð skemmtun. Á Íslandi hefur á síðustu árum fjölgað ört í flóru tónlistarhátíða, og nú ættu flestir að geta að minnsta kosti fundið sér eina hátíð hér á landi sér að skapi. Nú þegar þorri landans þeysist um þjóðvegi landsin í leit að sólinni, þegar Bræðslan stendur sem hæst á Borgarfirði eystri og styttist í Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, er ekki úr vegi að fara yfir tíu bestu tónlistarhátíðir landsins.
10. Músíktilraunir
Árið 1982 voru Músíktilraunir haldnar í fyrsta skiptið í félagsmiðstöðinni Tónabæ. Vinsældirnar jukust jafnt og þétt og síðan 2001 hefur hátíðin verið haldin í stærra húsnæði víðs vegar um Reykjavík. Músíktilraunir eru vettvangur fyrir ungt tónlistarfólk (13-25 ára) til að koma sér á framfæri. Þetta er auðvitað keppni og verðlaunin hafa alltaf verið tímar í hljóðveri og ýmis tónlistarútbúnaður.
Úrslit eru ráðin bæði af áhorfendum og dómnefnd sem skipuð er fjölmiðlafólki. Ekki hafa allar sigurhljómsveitir keppninnar meikað það en margar af stærstu hljómsveitum landsins stigu sín fyrstu skref í Músíktilraunum. Má þar nefna Maus, Botnleðju, Mínus, XXX Rottweiler Hunda, Agent Fresco og risasveitina Of Monsters and Men.
9. Atlavík ´84
Atlavíkurhátíðir voru haldnar um verslunarmannahelgi um áratugaskeið á seinustu öld. Þessar hátíðir voru ekki mikið frábrugðnar öðrum útihátíðum á þessum tíma nema að því leyti að hljómsveitin Stuðmenn hélt hljómsveitakeppni þar um skeið á níunda áratugnum.
Eitt árið, 1984, mun þó alltaf standa upp úr og hefur fengið nokkuð goðsagnakenndan blæ. Ekki fyrir þær sakir að hljómsveitin Fásinna vann hljómsveitakeppnina heldur vegna þess að bítillinn Ringo Starr veitti þeim verðlaunin, 50 þúsund kall. Ringo steig svo á svið fyrir framan 6000 manns ásamt Stuðmönnum og Gunnari Þórðarsyni og tóku þeir lagið Jonny B. Goode eftir Chuck Berry og hlýtur það að vera einn undarlegasti gjörningur tónlistarsögunnar.
8. Secret Solstice
Tónlistarhátíðin Secret Solstice er að miklu leyti stíluð inn á erlenda ferðamenn. Á hátíðinni er hægt að kaupa allskynns ferðir, eins og til dæmis rútuferð um Gullna Hringinn, náttúruskoðunarferð í þyrlu og partí á jarðhitasvæði nálægt Flúðum. Mikið er gert úr miðnætursólinni og íslenska sumrinu og öll sviðin á hátíðarsvæðinu hafa vísun í heiðni.
Tónlistin hefur aftur á móti ekki mjög þjóðlegan blæ heldur ræður raftónlist og hip-hop ríkjum. Stór hluti tónlistarfólksins kemur að utan, bæði heimsþekktir listamenn á borð við Massive Attack, Kelis, Busta Rhymes og Wu-Tang Clan og svo fjöldinn allur af lítt þekktari plötusnúðum og röppurum. Hin ört vaxandi íslenska rappsena hefur notið góðs af hátíðinni og fengið veglegan sess þar.
7. Rokkjötnar
Rokkjötnar eru eins dags tónleikahátíð þar sem þungarokk er í forgrunni. Rokkið hefur verið í mikilli sókn hér á Íslandi (sem og í heiminum öllum) undanfarin ár og haustið 2012 var hátíðin haldin í fyrsta skiptið, þá í Kaplakrika í Hafnarfirði. Stærstu þungarokkshljómsveitir landsins eins og Skálmöld, HAM og Sólstafir tróðu upp við góðan orðstýr.
Ári seinna þurfti þó að hætta við hátíðina vegna slakrar miðasölu. Mörgum þótti aðalnúmer kvöldins, Bubbi Morthens, ekki eiga heima þarna. Aðstandendur hátíðarinnar gáfust þó ekki upp og haustið 2014 stigu rokkjötnar aftur á svið, þá í Vodafone höllinni. Hátíðin hefur heldur betur fengið byr í seglin og nú í haust mun ein af stærri þungarokkshljómsveitum heims, Mastodon frá Bandaríkjunum, troða upp á hátíðinni. Rokkið lifir.
6. Aldrei fór ég suður
Þessi krúttlega hátíð hefur verið haldin á Ísafirði um páska síðan árið 2004. Hugmyndina fengu Ísfirðingarnir Mugison og faðir hans Muggi en ótal manns koma að skipulagningu hátíðarinnar. Kostnaði er alltaf haldið í lágmarki og tónlistarmennirnir spila frítt. Það er lögð mikil áhersla á að fjölskyldan geti öll mætt og að allir finni eitthvað við sitt hæfi.
Landsfrægir tónlistarmenn úr öllum geirum spila þarna ásamt lítt þekktara vestfirsku tónlistarfólki. Þarna er hægt að sjá dauðarokk, harmonikkuleik, teknó, trúbadora, rapp, sveitaballapopp og svo er auðvitað barnaball. Mikið er gert úr þætti Ísafjarðar og Vestfjarðanna allra á hátíðinni og mætti segja að hún sé orðin nokkurs konar bæjarhátíð eða að minnsta kosti mjög góð kynning á staðnum.
5. Uxi ´95
Uxi var metnaðarfull og alþjóðleg tónlistarhátíð þar sem fókusinn var á raftónlist. Hátíðin var haldin á Kirkjubæjarklaustri um verslunarmannahelgina og fjöldi heimsfrægra listamanna boðuðu komu sína. Aðstandendur gerðu þó í því að aðgreina sig frá öðrum útihátíðum og reyndu að höfða sérstaklega til erlendra ferðamanna.
Hátíðin átti að verða mikil landkynning og erlendir fjölmiðlarisar á borð við MTV og Volume sýndu henna áhuga. Tónleikarnir tókust margir hverjir ágætlega upp en mikið var um vandamál. Tölvukerfið bilaði hjá Björk, The Prodigy sátu lengi fastir í tollinum, Atari Teenage Riot þurftu að gista í tjaldi og fleira. Hátíðin var illa sótt og mikið um landadrykkju. Hún fékk líka stimpil á sig fyrir að vera eiturlyfjahátíð. Hún var því ekki haldin aftur árið eftir eins og til stóð.
4. Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum
Þjóðhátíð var fyrst haldin í Eyjum á 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1874 en hefur verið haldin árlega síðan 1901 um verslunarmannahelgina. Upphaflega var þetta fyrst og fremst íþróttahátíð og enn sér íþróttafélag bæjarins, ÍBV um hana. En smátt og smátt þróaðist hún í eina mestu tónlistarhátíð landsins.
Hefðir skipta miklu máli á hátíðinni og gefa henna mikinn sjarma. Sérstakt þjóðhátíðarlag sem samið er á hverju ári, brekkusöngurinn, hvítu tjöldin, flugeldasýningin, brennan og fleira. Hátíðin hefur aldrei fallið niður, ekki einu sinni eftir Heimaeyjargosið 1973 en þá var hún einfaldlega færð á annan stað á eyjunni. Um 16.000 manns sækja hátíðina á hverju ári og er hún yfirleitt stærsta útihátíð sumarsins. Flest stærstu nöfn íslenskrar tónlistarsögu hafa spilað á hátíðinni.
3. Eistnaflug
Eistnaflug er þungarokkshátíð sem hefur verið haldin á Neskaupsstað í júlí síðan árið 2005. Upphaflega var þetta eins dags hátíð en er nú haldin yfir þrjá daga og vinsældirnar eru orðnar töluverðar. Íbúafjöldi bæjarins er um 1500 sálir en um tvöföld sú tala er í bænum á meðan hátíðin stendur yfir.
Meirihlutinn af hljómsveitunum eru innlendar en þó hafa þó nokkur erlend bönd stigið á svið. Má þar helst nefna Napalm Death, Behemoth, At the Gates og Carcass. Þó að mörgum kunni að finnast síðhærðir, svartklæddir og flúraðir gestir hátíðarinnar vígalegir þá eru þetta hin vænstu skinn og framkvæmd hátíðarinnar er öðrum til fyrirmyndar. Slagorð hátíðarinnar er fyrir löngu orðið frægt: Ekki vera fáviti! …..og fólk hlýðir því.
2. Bræðslan
Í júlí er Bræðslan haldin í gamalli síldarvinnslu í einum af minnstu og afviknustu bæjum landsins, Borgarfirði Eystri. Þar búa um 100 manns en þegar hátíðin stendur yfir tífaldast mannfjöldinn í bænum. Bræðslan var fyrst haldin árið 2005 og steig þá Magni Ásgeirsson, Borgfirðingur og Bræðslustjóri, á svið ásamt Emilíönu Torrini.
Hátíðin hefur verið haldin á hverju ári síðan og eftirsótt að spila þar. Ekki bara af íslenskum tónlistarmönnum heldur hafa stór erlend nöfn á borð við Damien Rice, Glen Hansard og Belle & Sebastian spilað þar. Það hefur loðað við hátíðina að vera svolítið arty og öðruvísi og tónlistarmennirnir bera svolítinn keim af því. Nálægðin við þennan litla bæ og íbúana og fjarlægðin frá umheiminum gerir Bræðsluna að mjög sérstakri reynslu fyrir hátíðargesti.
1. Iceland Airwaves
Hátíðin var fyrst haldin í flugskýli á Reykjavíkurflugvelli árið 1999. Síðan hefur hún vaxið mjög og er nú haldin á hinum ýmsu skemmtistöðum í Reykjavík á hverju ári í október eða nóvembermánuði. Á hátíðinni spila bæði innlendir og erlendir listamenn og áhugi erlendra fjölmiðla og tónlistarútgefenda á hátíðinni er mikill.
Um 2000 erlendir ferðamenn koma árlega á hátíðina og um helmingur þeirra eru úr tónlistariðnaðinum. Hún er því notuð sem gluggi til að auglýsa íslenska tónlist og menningu. Meðal heimsþekktra listamanna sem spilað hafa á hátíðinni eru Björk, Sigur Rós, Sinead O´Connor, Fatboy Slim, Flaming Lips, Suede og Kraftwerk. Margir aðrir nýta sér vinsældir Airwaves og eru fjölmargir tónleikar víða um borgina á sama tíma, þ.e. svokallaðir off-venue tónleikar.