Skipulagsmál eru oftar en ekki uppspretta deilna í sveitarfélögum. Þetta á ekki síst við um það þegar plássfrekar byggingar fá að rísa innan um lægri hús. Á undanförnum árum hafa margar stórar byggingar risið á höfuðborgarsvæðinu sem umdeilanlegt er hvort eru mikil prýði fyrir höfuðborgarsvæðið. Sumar virðast hafa verið beinlínis óþarfar með öllu, þrátt fyrir að vera tugþúsundir fermetra að stærð, eins og Korputorgið.
En hvaða byggingaákvarðanir eru það helst sem geta talist umdeildar eða slæmar? Sitt sýnist hverjum um þetta efni en Kjarninn rýndi í stöðuna og valdi fimm byggingar sem geta talist lýsandi fyrir slæmar byggingarákvarðanir. Listinn birtist fyrst í Kjarnanum 7. nóvember 2013.
5. Korputorg
Það fer væntanlega að líða að
því að Korputorgi verði breytt
í eitthvað annað en verslunarhúsnæði. Til dæmis gagnaver eða risavaxið refabú, svo fullkomnlega óþörf er þessi viðbót við það mikla verslunarhúsnæði sem í boði er á höfuðborgarsvæðinu. Í skýrslu ráðgjafafyrirtækisins McKinsey
um íslenskan efnahag er á það bent að miklu meira verslunarrými sé hér á landi en í nágrannalöndum okkar, þegar horft er til fermetra verslunarhúsnæðis á hvern íbúa. Korputorg var opnað í október 2008, á versta tíma í Íslandssögunni. Húsið er gríðarlega stórt, um 45 þúsund fermetrar, og er uppbyggt eins og dæmigerð „outlet“ verslunarmiðstöð eins og víða sést erlendis, ekki síst í Bandaríkjunum. Ekki hefur verið mikið líf í húsinu frá því að starfsemi hófst þar þó að fyrirtækin sem þar eru með starfsemi hafi haldið úti metnaðarfullum verslunum alveg frá byrjun.
4. Perlan
Perlan er mögnuð bygging og útsýnið þaðan stórbrotið. Það er líka mikil upplifun í því fólgin fyrir fólk að geta snúist á meðan góðs matar er notið innandyra. Frá því að byggingin var vígð, hinn 21. júní 1991, hefur í henni verið metnaðarfull veitingaþjónusta þar sem mikið er lagt upp úr góðri þjónustu og mat. En í bland við hana hefur í húsinu verið alls konar starfsemi, til skemmri eða lengri tíma, sem
er víðs fjarri virðuleika sælkeramatarins á efstu hæðinni. Líklega hefur enginn þeirra sem tóku ákvörðun um byggingu hússins á sínum tíma fyrir fé skattgreiðenda í Reykjavíkurborg getað ímyndað sér þetta mikla mannvirki yrði notað til þess að hýsa tímabundna geisladiska og DVD-markaði, auk fleiri tímabundinna verkefna. Það bendir til þess að húsið sé ekki þarft, allra síst fyrir Reykjavíkur borg. Enda hefur kostnaður við húsið alla tíð verið íþyngjandi fyrir borgina og dótturfyrirtæki hennar. Orkuveita Reykjavíkur hefur verið með Perluna í söluferli undanfarin ár, í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækisins. Margir hafa sýnt því áhuga að kaupa bygginguna en salan hefur ekki enn verið kláruð.
3. Skuggahverfið
Það varð auðvitað að byggja Manhattanþakíbúðir í Reykjavík þegar efnahagsbólan þandist út. Annað hefði verið stílbrot á því sem Paul Krugman, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði árið 2008, kallaði „mesta brjálæði af öllu brjálæði“ þegar hann lýsti einkennum íslensku efnahagsbólunnar og útþenslu bankakerfisins á fundi í Hörpu hinn 27. október 2011. Skuggahverfið fékk einhverra hluta vegna að rísa. Það var táknrænt þegar bankarnir hrundu eins og spilaborg 7. til 9. október 2008 að húsin stóðu meira og minna tóm í Skuggahverfi. Eins og fokkmerki í jaðri miðborgarinnar, sem kallaðist ágætlega á við frægustu skiltaskilaboð Búsáhaldabyltingarinnar; Helvítis fokking fokk. Nú, fimm árum síðar, er meira líf í húsunum í hverfinu, en ytra útlit þeirra og umgjörð er eins og klippt út úr hlutverkaleiknum Cyberpunk eftir Mike Pondsmith. Dimmt, hátt, dökkt og drungalegt. Alveg eins og í fyrstu útgáfu Cyberpunksögunnar, sem á að gerast 2020, það er eftir sjö ár. Það þarf reyndar ýmislegt að ganga á ef sagan hjá Pondsmith á að ganga eftir. Þar ber líklega hæst að allir íbúar hverfisins þurfa að vígbúast óhemju öflugum skotvopnum og vera tilbúnir að drepa og verja sig af mikilli festu fyrir skyndi árásum. En grínlaust er hin dimma ásýnd Skuggahverfisins – sem
er reyndar réttnefni í ljósi áhrifa á nærumhverfið – ekki það sem miðborgin þurfti á að halda. Að byggja lúxusíbúðir fyrir mold
ríka í miðborgarjaðrinum með sjávarútsýni er einkennilega skýr birtingarmynd þess að vilja setja hina ríku á hærri stall en aðra samfélagsþega. Þetta átti ágætlega við um efnahagsbóluna en er eins og minnisvarði um hana í dag. Auk þess reyndist hverfið innihaldsríkt af alls kyns hönnunargöllum og innri meinum. Svipað og efnahagsundrið. Flísar hrundu utan af húsunum á tímabili og sköpuðu stórhættu fyrir vegfarendur í næsta nágrenni. Gallarnir hafa verið uppspretta dómsmála sem íbúar hafa höfðað. Því verður þó ekki á móti mælt að íbúðirnar í húsunum í Skuggahverfi eru margar hverjar glæsilegar.
2. Höfðatorg
Í Höfðatorgi mikið er líf. Hamborgarafabrikkan er á neðstu hæðinni. Þar er jafnan margt um manninn og mikið fjör, íslensk tónlist og hamborgarar. Það er blanda sem klikkar ekki (sem einlægur aðdáandi Rúnars Júl heitins finnst mér alltaf notalegt að hitta hann þegar inn á staðinn er komið!). Þá hefur smátt og smátt færst líf á hæðir hússins og hýsir það nú margvíslega starfsemi. Samherji, Fjármálaeftirlitið og lögmannastofan BBA Legal eru með starfsemi í húsinu. Peningarnir flæða því um starfsemi sem er þarna, svo mikið er víst. En þrátt fyrir þetta er húsið ævintýralega ljótt og hálfgerður minnisvarði um að verktakar hafi fengið of lausan tauminn. Bygging hússins og ákvörðunin um hana ætti að vera veruleiki í hinum frábæru þáttum The Wire, þar sem peningaþvættið blómstrar í verktakabransanum í Baltimore, en ekki í alvörunni í Reykjavík. Reyndar er Höfðatorg í ágætu samræmi við þunglamalegt skipulag í Borgartúni og nærumhverfi þess (núna eru fimm byggingakranar í bakgarði Borgartúns 26. Taldi Aliber þá með um daginn?)
Ein mögnuð undantekning er frá skipulagsslysinu. Það er hið magnaða listaverk Obtusa eftir Rafael Barrios, sem stendur fyrir utan Höfðatorg í miðju hringtorgi. Ég geng alla daga í gegnum Borgartúnið, fram og til baka, og það gleður alltaf að sjá verkið úr fjarlægð, svo í nálægð og svo lifnar það aftur við þegar komið er framhjá því. Þessi fimi Barrios með víddir er óskiljanleg snilld.
1. Turninn í Kópavogi
Í Kópavogi er 20 hæða turn sem hýsir margvíslega starfsemi. Hann er til margra hluta nýtilegur. Í honum eru verslanir, tannlæknastofa, endurskoðunarskrifstofa, ýmiss konar ráðgjafarverkefni, banki, líkamsræktarstöð, veitingahús og margvísleg önnur starfsemi. Það má segja að í þessu húsi blómstri þverskurður af atvinnulífi landsins, frá smáum fyrirtækjum til stórra. Það er því ekki innihaldið í húsinu sem er gagnrýnivert, heldur útlit þess og staðsetning. Hverjum datt það í hug að setja þennan turn á lægsta punktinn í Smárahverfinu í Kópavogi, með brekkubyggð nær allt í kring? Svo virðist sem einbeittur vilji til þess að skyggja á útsýni sem flestra hafi ráðið för þegar þessi bygging var heimiluð. Eins og áður segir nýtist turninn ágætlega til atvinnusköpunar en það lítur út eins og einhver hafi misst hann úr mikilli hæð og hann hafi troðist þarna niður í Smáranum. Í hrópandi ósamræmi við umhverfi sitt.