Hagnaður stóru tryggingarfélaganna þriggja, VÍS, TM og Sjóvá, nam á bilinu 554 milljónum króna til 1.419 milljóna króna á fyrri helmingi þessa árs. Minnstur var hann hjá TM en mestur hjá VÍS. Hagnaður Sjóvá nam 1.380 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Félögin þrjú eru öll skráð á markað og birtu uppgjör sín í þessari viku.
Í uppgjörstilkynningum segja allir forstjórar að rekstur hafi gengið vel.
„Afkoma félagsins á fyrri helmingi ársins var góð og umfram væntingar. Hagnaður af rekstri félagsins var 1.419 m.kr. eða tæpum 1.000 m.kr umfram afkomu á sama tímabili 2014. Aukinn hagnaður skýrist fyrst og fremst af góðri ávöxtun af fjárfestingaeignum félagsins, en ávöxtunin var 2,7% á öðrum fjórðungi og 6,05% á fyrri helmingi ársins. Afkoma félagsins af vátryggingastarfsemi var lakari en reiknað var með og var samsett hlutfall 104,5% á tímabilinu. Afkoman skýrist af auknum fjölda tjóna það sem af er ári en óveðrið 14. mars hafði umtalsverð áhrif á félagið og telur um 3,7% til hækkunar á samsettu hlutfalli á árshelmingnum. Tjónatíðni hefur aukist talsvert og á það sérstaklega við í ökutækjatryggingum auk þess sem félaginu var á öðrum fjórðungi tilkynnt um stórt tjón í erlendri starfsemi þess. Hinsvegar er ánægjulegt að sjá góðan vöxt í iðgjöldum en bókfærð iðgjöld voru 11,4% hærri á öðrum fjórðungi en á sama fjórðungi í fyrra,“ segir Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS.
„Afkoma Sjóvár á fyrri árshelmingi var góð og munar þar mestu um afar góða afkomu af fjárfestingareignum sem var mun hærri en alla jafna má vænta. Vöxtur var í iðgjöldum og kostnaðarhlutfall lækkaði. Hátt tjónahlutfall sem einkenndi fyrsta ársfjórðung m.a. vegna óveðurstjóna, hélst áfram hátt á öðrum ársfjórðungi. Þar er skýringa að leita bæði í slæmu tíðarfari á fyrri hluta fjórðungsins en mikil aukning ferðamanna og almennt stóraukin bílaumferð hafa einnig áhrif,“ segir Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár.
„„Rekstur TM á öðrum ársfjórðungi gekk vel. Hagnaður tímabilsins var 53% meiri en á öðrum fjórðungi á síðasta ári. Ójafnvægis gætir þó enn á milli starfsþátta vátrygginga og fjárfestinga. Fjárfestingatekjur á tímabilinu tvöfaldast milli ára á meðan vátryggingastarfssemin var heldur lakari þar sem samsett hlutfall hækkar úr 95% í 98%,“ segir Sigurður Viðarsson, forstjóri TM.