Félagið ALMC, sem áður var Straumur-Burðarás fjárfestingabanki, mun að óbreyttu greiða yfir 50 milljarða króna í stöðugleikaskatt til ríkissjóðs. Af þeim sökum er allt útlit fyrir að ekkert verði að fyrirhuguðum bónusgreiðslum til á bilinu tuttugu til þrjátíu starfsmanna, bæði núverandi og fyrrverandi. Bónusgreiðslurnar áttu að nema samtals tæplega 23 milljónum evra, jafnvirði um 3,4 milljarða króna. ALMC hyggst höfða mál á hendur ríkinu ef þess gerist þörf, til þess að verja hagsmuni sína.
Þetta kemur fram í DV í dag þar sem fjallað er um málið. Fram kemur að miðað við eignir félagsins um síðustu áramót mun 39 prósenta stöðugleikaskattur kosta félagið rúmlega 53 milljarða króna. Við þetta eru stjórnendur ALMC ósáttir en þeir telja ekki rétt að stöðugleikaskatturinn nái til félagsins. Stjórnendurnir telja starfsemina hafa til þessa haft jákvæð áhrif á greiðslujöfnuð íslenska þjóðarbúsins, að því er segir í DV.
Þar sem skattlagningin dregur úr áætluðum endurheimtum kröfuhafa ALMC þá munu starfsmennirnir ekki fá áður fyrirhugaðar bónusgreiðslur, en kröfuhafar ALMC eru flestir erlendir vogunarsjóðir. Í frétt DV segir að meirihluti þeirra starfsmanna, bæði fyrrverandi og núverandi, sem áttu að fá bónusgreiðslur séu flestir erlendir aðilar en einnig sé um að ræða Íslendinga sem starfað hafa ýmist fyrir ALMC og Straum fjárfestingabanka, sem nýlega sameinaðist MP banka. Að meðaltali myndu greiðslurnar nema yfir 100 milljónum króna á starfsmann.
Telja skattinn ekki eiga við ALMC
Sama dag og frumvarp um stöðugleikaskatt varð að lögum, þann 3. júlí síðastliðinn, sendi lögmaður ALMC Frosta Sigurjónssyni, formanni efnahags- og viðskiptanefndar, bréf þar sem því er harðlega mótmælt að skattskyldan sé látin ná til félagsins. Reimar Pétursson, lögmaður ALMC, segir félagið ekki geta komist hjá skattskyldunni með sama hætti og slitabú föllnu bankanna, það er með gerð nauðasamninga fyrir árslok, vegna þess að ALMC hafi þegar lokið slíkum nauðasamningi og réttarstaða félagsins því í grundvallaratriðum ólík því sem gildir um fjármálafyrirtæki sem sæta slitameðferð í dag.
Heimildir DV herma að Seðlabankinn líti svo á að útgreiðsla eigna ALMC til erlendra kröfuhafa myndi hafa neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð þjóðarbúsins og sé því hluti af þeim greiðslujafnaðarvanda sem frumvarpinu um stöðugleikaskatt sé ætlað að leysa. Því sé talið eðlilegt að skattheimtan nái einnig til ALMC.