Þeir tuttugu einstaklingar sem skulda Lánasjóði íslenskra námsmanna mest, og hafa klárað nám og hafið endurgreiðslur, skulda samanlagt 663 milljónir króna. Hæsta einstaka lánið er 47,2 milljónir króna. Þetta kemur fram í ársskýrslu LÍN.
Tólf af þessum tuttugu einstaklingum luku doktorsnámi, þar af sjö í Bandaríkjunum og fimm í Bretlandi. Hinir átta luku meistaranámi, sjö í Bandaríkjunum og einn í Bretlandi. Meðalstaða námslánaskuldar þeirra er í dag 33,1 milljónir króna, en sem fyrr segir er hæsta lánið 47,2 milljónir. Á síðustu átta árum hafa þessir einstaklingar borgað um 19,5 milljónir króna af lánum sínum, sem gera um 2,4 milljónir á ári. Það þýðir að hver greiðandi greiddi um 120 þúsund krónur að meðaltali á ári. Þó kemur fram í ársskýrslunni að nokkrir þessara einstaklinga hafi ekkert borgað af námslánaskuldum sínum.
Tuttugu hæstu lánin hjá þeim sem eru enn í námi eða hafa nýlokið því og eru ekki byrjaðir að borga til baka nema tæplega 507 milljónum króna. Átta þessara einstaklinga eru í doktorsnámi, fjórir í meistaranámi og tveir eru í grunnnámi í Englandi og Bandaríkjunum. Sex einstaklingar eru í læknisfræðinámi í Ungverjalandi.
Ekki er óalgengt að einstaklingar skuldi meira en tuttugu milljónir króna í námslán og þeim fer fjölgandi sem skulda þrjátíu milljónir eða meira.
Ójöfn dreifing lánsupphæða og þeir sem fá mest borga minna til baka
Fyrirkomulagið á endurgreiðslum námslána tryggir lága greiðslubyrði, af því að greitt er ákveðið fast hlutfall af tekjum. Í ársskýrslunni kemur fram að að meðaltali felst helmings eftirgjöf á lánum sem eru á bilinu 7,5 til 10 milljónir króna. „Fer sá ríkisstyrkur sem felst í námsláni í formi affalla og hagstæðra vaxtakjara af láninu hækkandi eftir því sem fjárhæð námsláns er hærri.“
Lánasjóðurinn lét gera skýrslu um fjárhagslegar áhættur sínar og þar var meðal annars skoðuð dreifing á lánsupphæðum. Í ljós koma að dreifingin er mjög ójöfn. Sá fimmtungur lánþega sem skuldar mest hjá lánasjóðnum skuldar samtals um 102 milljarða, eða tæplega helming af öllum útlánum. Upphæðin sem vænst er að fáist til baka er hins vegar 43 milljarðar, eða um 42 prósent af heildarskuldinni. Efstu fimm prósentin skulda 37 milljarða, en vænst er að um 11 milljarðar eða 30 prósent fáist til baka.
Hins vegar eru skuldir þess fimmtungs sem skuldar minnst um sjö milljarðar króna og 90 prósent af þeirri upphæð mun borgast til baka.