Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar fjallaði um fjölgun ráðuneyta undir liðnum störf þingsins á Alþingi í gær en nýju ráðuneytin tóku þá til starfa og eru þau nú tólf talsins.
„Kapallinn og tvö ný ráðuneyti hafa í för með sér rask, miklar tilfæringar starfsmanna og tafir og þetta kostar,“ sagði hún og vitnaði í Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra þegar hann sagði að ljóst væri að með því að stofna nýtt ráðuneyti, fleiri en eitt, þá myndi verða kostnaður – og hann gæti hlaupið á hundruðum milljóna króna.
Benti hún jafnframt á að samkvæmt svari frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu lægi sá kostnaður nú fyrir en hann verður að lágmarki 1,8 milljarðar. „Ekki nokkur hundruð milljónir heldur um tveir milljarðar og sá kostnaður getur samkvæmt svarinu orðið enn hærri. Tveggja milljarða kapallinn snýst, eins og við vitum öll hér inni, ekki um að fjárfesta í fólki og byggir ekki á greiningum á þörf eða fjárfestingum í innviðum. Hann snýst um að fjárfesta í Framsókn,“ sagði hún.
Sennilega heimsmeistarar í fjölda ráðuneyta
Þorbjörg setti tölurnar í samhengi. „Ég ætla að setja þær hallir sem stjórnin er að reisa sjálfri sér í samhengi við þá höll sem nú hefur verið talað dálítið um í samhengi við góðan árangur Íslands í handbolta. Ekkert íþróttahús á Íslandi uppfyllir í dag þau skilyrði sem gerð eru í alþjóðakeppnum. Handboltinn og körfuboltinn hafa verið á undanþágu og standa jafnvel frammi fyrir því að landsleikir verði spilaðir á erlendri grundu. Í skýrslu starfshóps um þjóðarleikvang fyrir inníþróttir, sem er frá september 2020, er kostnaðargreining þar sem fram kemur að höll fyrir 5.000 áheyrendur myndi kosta um 6,3 milljarða, höll fyrir 8.600 áheyrendur um 7 milljarða.
Eftir glæsilegan árangur strákanna í handboltanum er draumurinn um að komast enn lengra á stórmóti í augsýn. Ný höll ætti að vera það líka en er það ekki. Þangað til verðum við kannski að láta okkur nægja að sennilega erum við heimsmeistarar í fjölda ráðuneyta,“ sagði hún að lokum.