Arion banki tilkynnti í dag að hann hefði hækkað óverðtryggða breytilega íbúðalánavexti sína um 0,15 prósentustig, í 3,89 prósent, og fasta óverðtryggða vexti til þriggja ára um sama prósentustig, og eru þeir frá og með morgundeginum 4,64 prósent. Skömmu síðar tilkynnti Íslandsbanki hækkun á sínum breytilegu óverðtryggðu íbúðalánavöxtum um 0,15 prósentustig.
Landsbankinn breytti sínum vöxtum á mánudag þegar hann hækkað breytilegu óverðtryggðu vextina um 0,2 prósentustig (vextir á láni fyrir 70 prósent af kaupverði eru nú 3,85 prósent), föstu óverðtryggðu vextina til þriggja ára um 0,15 prósentustig og föstu vextina til fimm ára um 0,15 prósentustig.
Þar með hafa allir stóru viðskiptabankarnir þrír tilkynnt hækkanir á íbúðalánavöxtum sínum í vikunni. Engar breytingar hafa verið gerðar á verðtryggðum vöxtum.
Ástæðan fyrir hækkuninni er stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands í byrjun mánaðar, en þá voru stýrivextir hækkaðir um 0,25 prósentustig í 1,5 prósent. Frá því að hækkunarferli stýrivaxta hófst hjá bankanum í maí hafa þeir tvöfaldast.
Nú bjóða bankarnir hins vegar ekki lengur lægstu óverðtryggðu vextina, heldur lífeyrissjóðurinn Gildi. Sem stendur eru óverðtryggðir vextir hans á 75 prósent láni um 3,55 prósent.
Helmingur lána óverðtryggður
Hlutfall óverðtryggðra lána af heildaríbúðalánum til heimilanna var 27,5 prósent í janúar í fyrra. Í ágúst síðastliðnum var það hlutfall hins vegar komið upp í 50,2 prósent. Í nýlegri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um íbúðamarkaðinn er bent á að eftir því sem hlutdeild óverðtryggðra íbúðalána eykst sé viðbúið að miðlun peningastefnu Seðlabankans verði virkari. „Breytingar á stýrivöxtum munu hafa meiri áhrif á hagkerfið í heild þegar stærra hlutfall af heildaríbúðalánum til heimilanna eru óverðtryggð þar sem óverðtryggðir vextir eru næmari fyrir stýrivaxtabreytingum. Þessi þróun getur leitt til þess að Seðlabankinn þurfi ekki að hækka vexti eins mikið til að slá á eftirspurn og ef hlutfall óverðtryggðra lána væri lægra.“
Sóknin í fastvaxtalánin eftir að vextir tóku að hækka er líka nokkuð skýr í tölunum sem HMS birtir í skýrslunni sinni. Þar kemur fram að í ágúst hafi 61 prósent af nýjum óverðtryggðum útlánum innlánsstofnana til heimilanna verið fastvaxtalán á meðan 39 prósent voru á breytilegum vöxtum. „Aukning á hlutfalli fastvaxtalána bendir til þess að heimilin búist við töluverðum vaxtahækkunum þar sem bilið á milli fastra vaxta og breytilegra er breitt.“