Tveimur milljörðum króna verður varið í aðstoð við flóttafólk og hælisleitendur á þessu ári og næsta ári. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar nú klukkan 15. Milljarður fer í þessi mál af fjáraukalögum þessa árs og milljarður í fjárlögum næsta árs.
Fénu verður varið til þrenns konar verkefna. Í fyrsta lagi verður fjárstuðningur við alþjóðastofnanir og hjálparsamtök aukin. Í öðru lagi verður fé sett í móttöku á flóttafólki og hælisleitendum hér á landi, bæði með því að taka á móti kvótaflóttamönnum og einnig þeim sem koma hingað eftir öðrum leiðum. Í þriðja lagi verður fé varið til aðgerða sem geta umbylt og hraðað afgreiðslu á hælisumsóknum á Íslandi.
Fimm sérfræðingar verða skipaðir í verkefnastjórn sem mun vinna ítarlegri tillögur um þessi mál.
Með þessum aðgerðum mun Ísland skipa sér í hóp þeirra þjóða sem hvað mest leggja af mörkum til aðstoðar flóttafólki vegna vandans í Sýrlandi, að því er fram kemur í tilkynningu ríkisstjórnarinnar. Þá verða aðrar þjóðir hvattar til að fylgja fordæmi Íslands, og ríkisstjórnin ætlar að taka upp málefni flóttafólks á alþjóðavettvangi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra mun meðal annars taka upp flóttamannamál á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í næstu viku.