Ólöf Nordal innanríkisráðherra gagnrýndi gerð Vaðlaheiðarganga harðlega í útvarpsþættinum Sprengisandi í dag. Þar sagði hún m.a.: „Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddum atkvæði gegn þessari framkvæmd á síðasta kjörtímabili. Við höfum haft áhyggjur af þessu frá upphafi. Tveir plús tveir verða aldrei fimm, sama hvað þú reynir að reikna.“
Ólöf Nordal innanríkisráðherra.
Kostnaður vegna gerðar Vaðlaheiðarganga er talinn fara 1.500 milljónir fram úr áætlun. Þetta er mat stjórnar Vaðlaheiðarganga í svari við fyrirspurn fjárlaganefndar Alþingis, sem greint var frá í lok júní. Alþingi samþykkti sumarið 2012 að fjármagna gerð Vaðlaheiðarganga.
Það er hins vegar ekki svo að allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi kosið gegn heimild ríkissjóðs til að gera það. Kristján Þór Júlíusson, núverandi heilbrigðisráðherra, og Tryggvi Þór Herbertsson, þáverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kusu báðir með lögunum. Báðir voru þingmenn Norðausturkjördæmis, en Vaðlaheiðargöng eru í því kjördæmi. Auk þess voru fimm þingmenn Sjálfstæðisflokks fjarverandi þegar atkvæðagreiðslan fór fram. Níu þingmenn af 16 greiddu því atkvæði gegn framkvæmdinni.
Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ólöf sagði í útvarpsþættinum að sér finnist staða framkvæmdarinnar gríðarlegt áhyggjuefni og að hún óttist að þetta sé ekki í síðasta sinn sem farið verði í framkvæmdir sem vitað sé að kosti meira en gert var ráð fyrir. "Síðan kemur stór reikningur og hann lendir á skattgreiðendum[...]Ég sé ekki hvernig þetta getur endað með öðrum hætti og ef ég hef rangt fyrir mér skal ég vera sú fyrsta til að viðurkenna það.“