Ráðgjafafyrirtækið LC Ráðgjöf ehf., í eigu Guðfinnu Bjarnadóttur, fyrrverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins, hefur fengið greitt samtals 28,8 milljónir króna fyrir tvö aðskilin verkefni frá annars vegar mennta- og menningarmálaráðuneytinu og hins vegar atvinnuvegaráðuneytinu. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Félagið tók að sér ráðgjafavinnu í tengslum við læsisverkefni fyrir mennta- og menningarmálaráðherra og fékk tæpar tólf milljónir króna fyrir. Á sama tíma vann félagið fyrir atvinnuvegaráðherra að verkefni um stefnumótun í ferðaþjónustu. Fyrir þá vinnu hefur LC Ráðgjöf samtals fengið greiddar 17,2 milljónir króna.
Ráðherrar ráðuneytanna eru báðir Sjálfstæðismenn, Illugi Gunnarsson er ráðherra menntamála og Ragnheiður Elín Árnadóttir er iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Í umfjöllun Fréttablaðsins er greint frá frumvarpi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, þess efnis að stjórnvöldum sé skylt að gera kaup á þjónusut yfir 150 þúsund krónum opinber.
Guðfinna sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 2007 til 2009. Áður, frá árinu 1998 til 2007, var hún rektor Háskólans í Reykjavík.