Innflutningur á sjónvarpstækjum er tvöfalt meiri á fyrstu sex mánuðum ársins í samanburði við fyrstu sex mánuði ársins 2014. Innflutningur á hljóðvarpstækjum hefur aukist um 46 prósent, á kæli- og frystitækjum um 73 prósent og á fólksbílum um 34 prósent. Aukinn kaupmáttur, fjölgun ferðamanna, sterkara raungengi og lækkun vörugjalda á raftækjum hefur vafalaust haft sitt að segja, að mati greiningardeildar Arion banka sem fjallar í dag um aukin umsvif í inn- og útflutningi.
Innflutningur á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við fyrstu sex mánuði ársins 2014. Myndin er fengin úr Markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.
„Aukin umsvif eru í hagkerfinu um þessar mundir, nær sama hvert litið er. Utanríkisverslun er þar engin undantekning en á fyrri helmingi ársins hefur innflutningur aukist um 23% milli ára á föstu gengi og útflutningur aukist um 25%,“ segir í Markaðspunktar greiningardeildarinnar. Kjarninn fjallað var um vöruskiptin í síðustu viku.
Stærstur hluti aukningarinnar á innflutningi er vegna hrávara og rekstrarvara. Innflutningur á þessu vöruflokkum jókst um 25 milljarða í samanburði við fyrri helming árs 2014. Þar af eru 13 milljarðar tilkomnir vegna aukins innflutnings á súráli, sem ál er unnið úr. „Aukning á innflutningi súráls hefur verið meiri en aukning útflutnings á áli í tonnum talið, eða 17% og t.d. var innflutningur á súráli í júní nærri því tvöfalt meiri en í júní í fyrra annars vegar og í maí síðastliðnum hins vegar. Þá hefur innflutningur á fjárfestingavörum einnig aukist. Uppgangur í íbúðafjárfestingu sést þegar rýnt er nánar í tölurnar, en t.a.m. var flutt inn tvöfalt meira af þakjárnum og 25% meira af rúðuglerum á fyrri helmingi ársins samanborið við fyrri helming ársins 2014,“ segir greiningardeild Arion banka.
Sjávarafurðir og ál skýra stærstan hluta aukningar á verðmæti útflutnings. Verðmæti sjávarafurða hefur aukist um 26 prósent, að mestu leyti vegna hærra verðs. Bent er á í grein greiningardeildarinnar að útflutningur hafi þó einnig aukist í tonnum talið um tæplega 19.000 tonn, eða um 6 prósent. Á milli tímabilanna hefur verðmæti áls síðan aukist um 46 prósent. Það jafngildir um 40 milljörðum króna. „Samt hefur heimsmarkaðsverð áls á fyrri helmingi ársins verið að meðaltali svipað og á sama tíma í fyrra og útflutt magn áls aðeins aukist um 6% milli ára. Líklegt er að styrking bandaríkjadollars hafi aukið útflutningsverðmæti áls í krónum talið, en krónan hefur á árinu verið að jafnaði 18% veikari gagnvart dollarnum heldur en í fyrra. Það dugir þó ekki til að útskýra 38% hækkun á útflutningsverði.“