„Við sjáum einnig að í hinu pólitíska landslagi er einn hópur sem finnur sér hvergi heimili í því þjóðfélagi sem er í þróun hér á landi og það eru hófsamir hægri menn og allt að því jafnaðarmenn - „týnda hægrið.“ Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri greiningu ráðgjafa- og rannsóknarfyrirtækisins Verdicta á pólitísku landslagi á Íslandi í janúar 2015.
„Þetta er kjarninn í hinum gamla Sjálfstæðisflokki sem er að stórum hluta ekki hlynntur stjórnvöldum í grunninn þó að dæmi séu um að sumir í þessum hóp kjósi stjórnvöld þá er það oft gert með hálfum huga og meira af því að þeim líst enn verr á hina flokkana sem eru í boði,“ að því er fram kemur í greiningu Verdicta.
Öflugur hópur með mikil áhrif
Þá segir að þessi hópur fólks íhugi í auknum mæli að flytjast af landi brott, því þeim finnist margt í stjórnun landsins andstætt þeirra grunngildum um hvernig landið eigi að þróast. Hópnum finnist misskipting innan samfélagsins vera orðin of mikil, stjórnvöld hygli um of hagsmunahópum á kostnað almennings á sama tíma og þau skera niður fjárveitingar til máttarstólpa þjóðfélagsins eins og heilbrigðiskerfisins og RÚV og fleira, gegn vilja fólksins í landinu.
„Þetta er slæmt fyrir fyrir stjórnvöld því í „týnda hægrinu“ er að finna máttarstólpa borgarastéttarinnar sem á margan hátt var límið í samfélaginu, aflaði mikilla skatta, virti lög og reglur og var brú og sáttarstoð á milli þeirra sem mikil efni höfðu og þeirra sem áttu minnst. Ekki skal heldur gleyma því að innan „týnda hægrisins“ er margt öflugt fólk sem hefur góðan aðgang að fjölmiðlum og getur haft mikil áhrif á hina pólitísku umræðu.“
Stjórnmálamenn grafa sína eigin gröf
Í greiningu Verdicta er fullyrt að samhliða áhugaleysi stjórnvalda á þörfum og sjónarmiðum yngra fólks, fari áhugi þessa hóps á því sem fram fer á meðal ráðamanna þverandi. Þetta sjáist best á minnkandi kosningaþátttöku á meðal ungs fólks. „Mjög lítið (er) gert af því að taka tillit til þarfa ungs fólks, svo unga fólkið hættir bara að skipta sér af. Ef hið pólitíska kerfi ætlar að halda áframa að starfa og vinna úr takti við meirihluta þjóðarinnar, heldur gjáin áfram að stækka. [...] Litlar klíkur hafa náð tökum á kerfinu og fleiri og fleiri snúa við þeim baki. Þetta er eins og í framhaldsskóla þar sem lítil og lokuð klíka nær tökum á nemendafélagi og félagslífi, á endanum hætta allir aðrir en fylgismenn klíkunnar að mæta á viðburði og félagslífið fellur um sjálft sig.“
Þá segir í greiningu Verdicta að þrátt fyrir óánægju almennings með sitjandi ríkisstjórn, sakni fólk nýrra valkosta. Stór hluti fólks sé til að mynda búinn að gefast upp á vinstri flokkunum eftir setu þeirra í ríkisstjórn. „Fólki finnst sem að þeir sem séu í forystu í vinstri flokkunum séu algjörlega gagnslausir, verklitlir, hafi litla getu til að stýra landinu og séu upp til hópa fólk í leit að þægilegri innivinnu.“ Í greiningu Verdicta er stjórnarandstaðan gagnrýnd harðlega fyrir getuleysi, skort á dugnaði og fyrir að nýta sér ekki þau fjölmörgu umdeildu mál á þingi sem skyldi til að vekja á sér athygli. „Fólki finns eins og stjórnarandstaðan sé eins slöpp og hugsast getur.“