Um 15 þúsund einstaklingum verður synjað um skuldaleiðréttingu. Þetta er fullyrt í Fréttablaðinu í dag. Þegar umsóknarfrestur vegna skuldaleiðréttingu rann út 1. september síðastliðinn var upplýst opinberlega að um 69 þúsund umsóknir hefðu borist, og að baki þeim stærðu um 105 þúsund einstaklingar.
Skuldaleiðréttingin verður kynnt í Hörpu í dag klukkan 13:30. Samkvæmt frétt Fréttablaðsins í morgun munu þeir sem fá eitthvað í sinn hlut vera um 90 þúsund einstaklingar.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann fer yfir skuldaleiðréttinguna. Þar kemur meðal annars fram að bein lækkun höfuðstóls verði að meðaltali um 1,3 milljónir króna.
Á morgun verða niðurstöðurnar birtar á heimasíðu verkefnisins, leiðrétting.is. Þá geta þeir sem sóttu um séð hvað þeir fá í sinn hlut.
Bilið brúað með aðkomu ríkissjóðs
Í grein Sigmundar Davíðs í Morgunblaðinu segir ennfremur: „Leiðréttingin tengist uppgjöri slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja. Verja skal hluta af fyrirsjáanlegu svigrúmi sem myndast við uppgjörið til að koma til móts við heimilin. Þar sem meira liggur á leiðréttingunni en uppgjöri slitabúa er bilið brúað með aðkomu ríkissjóðs. Svigrúmið er hins vegar þegar byrjað að myndast fyrir milligöngu ríkisins en slitabúin greiða nú tugi milljarða í skatta árlega.
Leiðréttingin er einungis fyrsta aðgerð af mörgum sem ríkisstjórnin hyggst innleiða á kjörtímabilinu í því skyni að skapa heilbrigðara umhverfi bæði heimila og fjármálamarkaðar. Losun fjármagnshafta, afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum, uppbygging húsnæðiskerfisins og endurskipulagning Íbúðalánasjóðs eru mikilvægar vörður á þeirri leið. Þannig munu öll heimili, óháð fjölskyldugerð og láns- eða leiguformi, njóta góðs af breytingunum.
Öll þessi verkefni taka tíma og geta krafist þolinmæði, enda verða aðstæður að vera hagfelldar svo að ekki verði lögð veruleg fjárhagsleg áhætta á heimilin. Flest bendir til að hagstæðar aðstæður séu að skapast til þessara verka þó vissulega séu blikur á lofti, t.d. vegna óvissu um kjarasamninga."