Árið 2014 notuðu 17,8% Íslendinga almenningssamgöngur reglulega, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Ekki var marktækur munur á körlum og konum. Notkun almenningssamganga tengist efnahagsstöðu, en 30,5% af tekjulægstu tíundinni notuðu almenningssamgöngur samanborið við 12,3% af tekjuhæstu tíundinni. Þá notuðu 29,2% þeirra sem bjuggu á heimilum sem skorti efnisleg gæði almenningssamgöngur en 17,2% sem bjuggu ekki við slíkan skort.
Þeir hópar sem eru líklegastir til að nota almenningssamgöngur voru nemar, 32,5%, ungt fólk á aldrinum 16-24 ára, 31,3%, atvinnulausir, 30,8%, þeir sem sem búa á Íslandi en fæddust í öðru landi, 28,9%, leigjendur, eða 27,7% þeirra sem leigja á almennum markaði og 25,9% þeirra sem leigja í hverskyns leiguúrræðum, og einstæðir foreldrar og börn þeirra, 25,6%, að því er fram kemur í tilkynningu Hagstofu Íslands um málið.