Íslenska ríkið keypti upplýsingatækniþjónustu fyrir 30,4 milljarða króna á árunum 2007 til 2013. Kaup á slíkri þjónustu hafa aukist ár frá ári og voru hæst í fyrra, þegar 4,9 milljarðar króna fóru í slík kaup. Á síðasta ári eyddi embætti ríkisskattstjóra hæstri fjárhæð í aðkeypta þjónustu frá upplýsingafyrirtækjum, eða 377 milljónum króna. Þetta kemur fram í skriflegu svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Píratans Helga Hrafns Gunnarssonar sem lagt var fram á Alþingi í dag.
Umframgreiðslur liggja ekki fyrir
Helgi Hrafn spurði líka um hvaða tilteknu viðskipti við upplýsingafyrirtæki hafi ekki farið í gegnum útboðsferli á þessu tímabili, 2007-2013, en hafi nú þegar leitt til heildargreiðslna sem nema meira en gildandi viðmiðunarfjárhæðum þess tíma þegar hver samningur var undirritaður, og hver ástæða þess hafi verið að ekki var farið í útboð í þeim tilfellum.
Í svari ráðherrans segir: „ Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ekki tök á að greina út frá fyrirliggjandi fjárhagsupplýsingum hvaða viðskipti við upplýsingatæknifyrirtæki fóru í útboðsferli á árunum 2007–2013. Þá liggur ekki fyrir í hvaða viðskiptum heildargreiðslur fóru umfram viðmiðunarfjárhæðir á hverjum tíma. Ástæða þess er að innkaup ríkisins sem byggð eru á útboðum eða rammasamningum eru ekki sérmerkt í fjárhagskerfi ríkisins. Hins vegar fara fram útboð á sviði upplýsingatæknimála reglulega og samningar sem gerðir eru á grundvelli þeirra geta náð yfir fjölda ára. Einnig eru í gildi rammasamningar á sviði upplýsingatæknimála og samkvæmt upplýsingum frá Ríkiskaupum var velta þessara samninga á árinu 2013 um 1,6 milljarðar kr.“