Rúmlega 32 þúsund flóttamenn munu flytjast frá Ítalíu og Grikklandi til annarra Evrópuríkja, samkvæmt samkomulagi ráðherra Evrópusambandsríkja sem náðist í Brussel í gær. Samkvæmt frétt Breska ríkisútvarpsins, BBC, munu flutningar hefjast í október næstkomandi. Þar af munu íslensk stjórnvöld taka á móti fimmtíu flóttamönnum. Fólkið kemur frá Sýrlandi, Eritreu, Írak og Sómalíu. Vísir greinir frá í dag og segir að undirbúningur sé þegar hafinn í félagsmálaráðuneytinu.
Haft er eftir Matthíasi Imsland, aðstoðarmanni Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra, að Ísland skuldbindi sig til að taka þátt í verkefninu, með fyrirvara um að það fáist fjármagn frá Alþingi. Ísland sé eins og aðrar Schengen-þjóðir að leggja sitt af mörkum til að taka á móti hópum flóttamanna og stuðli þannig að lausn á alþjóðlegu vandamáli. „Þessi yfirlýsing er mjög í anda þeirrar stefnumótunar sem hefur verið í flóttamannaráði sem er starfandi í ráðuneytinu. Það er þannig að það hefur verið gert ráð fyrir að taka á móti allt að 25 flóttamönnum á ári svoleiðis að undirbúningur er hafinn,” segir hann í samtali við Vísi.
Frá árinu 2010 hafa íslensk stjórnvöld tekið á móti 39 flóttamönnum, eða átta á ári að meðaltali. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur kallað eftir því að íslensk stjórnvöld taki á móti fleirum, segir í frétt Vísis.
Evrópulöndin ætluðu að taka við fleira fólki strax
Upphaflega stóð til að um 40 þúsund flóttamenn myndu flytjast frá Grikklandi og Ítalíu til annarra ríkja Evrópusambandsins. Í gær varð hins vegar ljóst að 32 þúsund manns flytjast annað, frá og með október næstkomandi. Ákvörðun um frekari flutninga á 8000 manns til viðbótar verður tekin fyrir lok árs, samkvæmt frétt BBC.
Talið er að um 150 þúsund manns hafi flúið heimalönd sín, vegna stríðsástands og fátæktar, og leitað til Evrópuríkja á þessu ári. Það er 150 prósent aukning frá árinu 2014. Stærstur hluti þessara flóttamanna hefur farið til Grikklands og Ítalíu. Flóttamannabúðir í löndunum tveimur eru yfirfullar og kölluðu löndin því eftir aðstoð annarra ríkja ESB. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tók ákvörðun um að 40 þúsund flóttamenn yrðu fluttir til annarra Evrópuríkja í kjölfar hræðilegs slyss í apríl, þegar fleiri en 800 einstaklingar drukknuðu undan ströndum Líbíu á hættulegri leið yfir Miðjarðarhafið til Evrópu.