Framsóknarflokkurinn er langóvinsælasti stjórnarflokkur landsins samkvæmt nýrri könnun MMR. Alls sögðust 38,9 prósent aðspurðra í könnuninni að þeir vildu síst hafa flokkinn í ríkisstjórn. Þeim hefur fjölgað nokkuð undanfarið ár sem vilja síst sjá Framsókn við stjórn, en í febrúar 2014 sögðust 23,4 prósent vera þeirrar skoðunar.
Ungt fólk vildi síður hafa Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn en þeir sem eldri eru og íbúar á höfuðborgarsvæðinu vilja flokkinn síður en landsbyggðin.
Sá flokkur sem kemst næst Framsókn í stjórnunarlegum óvinsældum er Sjálfstæðisflokkurinn, en 16,6 prósent vilja síst sjá hann við stjórn.
Fæstir virðast láta Bjarta framtíð fara í taugarnar á sér, en einungis 3,6 prósent vilja síst sjá þann flokk í ríkisstjórn. Samfylkingin (15,1 prósent), Vinstri græn (13,6 prósent) og Píratar (12,3 prósent) sigla nokkuð lygnan sjó í óvinsældum gagnvart ríkisstjórnarsetu.
Úrtakið voru einstaklingar 18 ára og eldri sem valdir voru handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Svarfjöldi er að jafnaði um 950 einstaklingar á mánuði.