Alls eru um 73 prósent Íslendinga andvígir því að trúfélög fái úthutað ókeypis lóðum til að byggja trúarbyggingar hjá sveitarfélögum. Rúmlega átta prósent eru fylgjandi því að málum sé þannig háttað. Litlar breytingar hafa orðið á afstöðu Íslendinga til málsins frá því í fyrir einu ári síðan, þegar tæplega 74 prósent Íslendingar voru andvígir slíkum lóðaúthlutun. Þetta kemur fram í nýbirtri könnun MMR.
Stuðningsmenn Framsóknarflokksins (81,1 prósent) og Sjálfstæðisflokksins (79,9 prósent) er mest á móti því að trúfélög fái úthlutað ókeypis lóðum. Yfirgnæfandi meirihluti stuðningsmanna allra flokka er hins vegar á móti því að trúfélög fái úthlutað ókeypis lóðum til að byggja trúarbyggingar. Minnst andstaða er hjá stuðningsmönnum Vinstri grænna (61,9 prósent) og Samfylkingar (61,9 prósent).
Stuðningsmenn Vinstri grænna (16,9 prósent) hlynntastir því að gefa slíkar lóðir en fæstir sem eru hlynntir slíkum gjöfum styðja Framsóknarflokkinn (5,1 prósent) eða Sjálfstæðisflokkinn (5,4 prósent).
Andstaðan er minni á meðal kvenna (68,5 prósent) en karla (76,9 prósent). Athygli vekur að minnst andstaða við fríar úthlutanir til trúfélaga er annars vegar hjá aldurshópnum 60 til 67 ára (64,6 prósent) og 18 til 29 ára (69,1 prósent) á meðan að andstaðan er mest hjá fólki á miðjum aldri, sérstaklega aldurshópnum 50 til 59 ára (79,4 prósent).
Þá er andstaðan mest hjá þeim tekjuhópi sem er með yfir eina milljón krónur á mánuði í laun (75 prósent).